152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Grímseyjarferja.

431. mál
[18:27]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil einnig þakka öðrum þingmönnum fyrir þátttökuna í þessari umræðu hér um Grímseyjarferju og Grímsey, það er engin spurning. Af samtali mínu við heimamenn, þó svo að við séum með flug þangað, má heyra að siglingin skiptir mjög miklu máli fyrir ferðaþjónustuna og ferðaþjónustan skiptir sífellt meira máli fyrir Grímsey. Ég held því að það sé engin spurning að þarna verði að gera sem mest til að hægt sé að skipta um þessi skip. Ég hef átt fundi um Baldur á Breiðafirði, Hríseyjarferjuna og Sæferðir og áhuga manna í þessum efnum. Ef þingið er tilbúið að forgangsraða meiri peningum í þessa veru þá er ég til og ráðuneyti mitt. En ef við fáum ekki meiri fjármuni verður ekki hægt að fara í, og ég vitna í þingsályktunartillögu þingmannsins sem er með þessa fyrirspurn, 5–6 milljarða kr. framkvæmdir á Suðurfjarðavegi öðruvísi en að raða einhverju öðru aftar í forgangsröðina. Múlagöngum, Öxi, einhverju öðru? Ég veit það ekki. Nema það komi nýir peningar. Þá mun ég glaður taka þá til handargagns og reyna að koma málum hraðar í gegn. En við munum að sjálfsögðu halda áfram að undirbúa okkur og vinna á þessum nótum af því að þetta er framtíðin. En það er líka mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða möguleika við höfum, hvaða fjármuni við ætlum að setja í samgöngur og að við þurfum að forgangsraða þeim fjármunum, hvernig við ætlum að svara því hvað eigi að vera fyrst.