152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

uppfletting í fasteignaskrá.

467. mál
[18:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þessi fyrirspurn lítur kannski út fyrir að vera einföld, snýr að ákvörðun stjórnvalda um að færa fasteignahluta þjóðskrár til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og spurningin lýtur að þeirri gjaldskrá sem þar er viðhöfð. Ástæðan fyrir því að það er dálítið mikilvægt að huga að gjaldskránni er til að byrja með að það erum auðvitað við á Alþingi sem setjum ákveðnar skyldur á framkvæmdarvaldið um að halda úti ákveðnum gögnum. Hér er að miklu leyti verið að biðja notendur að greiða fyrir það að fá aðgang að þeim gögnum. Það er mikilvægt að spyrja að því hvort sú gjaldskrá sé hófleg. Í ástandi eins og nú er, þegar íbúðaverð er á fleygiferð upp á við, er mikilvægt að fólk geti leitað sér upplýsinga um þróunina eins og hún er að gerast sem næst okkur í tíma. Annars eigum við mögulega á hættu að ákveðinn orðrómur fari af stað um jafnvel enn meiri hækkanir en eru í raun og veru í gangi og þannig blásist upp ákveðin verðbóla. Fasteignaskráin uppfærist kannski ekki alveg nægilega hratt fyrir það og hvað þá að fá aðgang að þeim gögnum. Eins og kemur fram í tilkynningu ráðuneytis þá ætlar ráðherra að leggja fram frumvarp um nauðsynlegar breytingar á lögum á vorþingi. Sú tillaga er ekki komin fram enn þá eftir því sem ég fæ best séð. Vandinn er, eins og ég gat um áðan, að það stendur sérstaklega í lögunum að það sé Þjóðskrá Íslands sem fari með yfirstjórn fasteignaskráningar og það þarf að breyta því. Gerð var breyting á öllum lögum fyrir ekki svo mörgum árum þar sem heiti ráðherra voru sérstaklega tekin út og orðið „ráðherra“ sett inn í staðinn. Þarna gæti verið hentugt að hafa t.d. bara „stofnunin“, og síðan yrði það ákveðið í forsetaúrskurði eða einhverjum úrskurði ráðuneytis hvaða stofnun fer með umsjón þeirra laga.

Að lokum myndi ég vilja spyrja hæstv. ráðherra almennt um stefnu varðandi gjaldtöku fyrir uppflettingu í opinberum gagnasöfnum. Þetta eru að miklu leyti til upplýsingar sem eru í raun búnar til af íbúum landsins, með því að þeir búa þar sem þeir búa. Gjald fyrir aðgang að slíkum upplýsingum ætti að mínu mati að vera mjög hóflegt, helst ekki neitt og sérstaklega ekki fyrir rafræna uppflettingu (Forseti hringir.) þar sem því fylgir sama og enginn kostnaður þegar allt kemur til alls.