152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

rafræn stjórnsýsla við afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun.

255. mál
[18:56]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Þetta er ágætisfyrirspurn hjá hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur. En mér finnst kannski vanta í þessa umræðu hver pólitík stjórnvalda er varðandi þessar umsóknir því að ég held að pólitík stjórnvalda varðandi fólk á flótta verði ekkert betri þó að hún sé sýnd okkur rafrænt, að við séum að ræða það hérna inni hverjar hugmyndirnar eru, því að töfraorð ríkisstjórnarflokkanna þriggja í þessum málaflokki hefur verið eitt og aðeins eitt: Skilvirkni. Rafræn stjórnsýsla rímar óskaplega vel við það og eins og ég segi er ágætt að auka aðgengi að þjónustu með því að gera hana rafræna en það breytir því ekki hver veruleikinn er í stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart því fólki sem hingað sækir. Í því sambandi vildi ég minna á og halda til haga hver niðurstaða ríkisstjórnarinnar varð um áframhaldandi samstarf við Rauða krossinn sem var þungamiðjan og hjartað í stuðningi við það fólk sem hingað kemur.