152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

rafræn stjórnsýsla við afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun.

255. mál
[19:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og held að þetta sé mjög mikilvæg umræða. Það var gott að heyra það sem hæstv. ráðherra fór hér yfir, fyrirætlanir. Ég vil bara brýna hann til að sjá til þess að þetta gangi eftir því að okkur er öllum ljóst hve álagið á Útlendingastofnun er mikið, hefur vaxið mikið á síðustu árum og mun koma til með að vaxa. Það er algjörlega nauðsynlegt að við beitum nýjustu tækni til að veita betri þjónustu með skilvirkari hætti og þar hlýtur stafræn þjónusta að vera aðalmálið. Ég sé, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, að nú er umsókn um ríkisborgararétt, hin hefðbundna leið, orðin rafræn í gegnum island.is og forstjóri Útlendingastofnunar kynnti það fyrir okkur í allsherjar- og menntamálanefnd þegar hún var að kynna stofnunina, þessar áætlanir þeirra. Ég ítreka að við verðum að sjá þessa stafrænu þróun (Forseti hringir.) eiga sér stað í Útlendingastofnun sem og annars staðar. Við höfum séð alveg ofboðslega mikla skilvirkni (Forseti hringir.) og betri þjónustu á mörgum stöðum og nú viljum við sjá það líka hjá Útlendingastofnun.