Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

Suðurnesjalína 2.

[13:55]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er víða pottur brotinn í flutningi raforku. Á Suðurlandi varð allt rafmagnslaust í gær, einn ganginn enn, og tengingar í sæstreng til Eyja eru bilaðar í upphafi loðnuvertíðar, varaafl dugar ekki til að hlaða rafgeyma Herjólfs og loðnufarmur á leið til Eyja gæti þurft að fara annað. Staðan er grafalvarleg og þessu til viðbótar vantar nýja vatnsleiðslu til Eyja. Hátæknivætt atvinnulíf kallar á trausta og örugga innviði og þess vegna hafði ég kallað eftir fyrirspurn vegna framkvæmdaleyfis fyrir Suðurnesjalínu 2.

Umræða um lagningu Suðurnesjalínu 2 hófst um aldamótin 2000. Þá áttu öll sveitarfélögin fimm á Suðurnesjum fulltrúa í stjórn. Árið 2006 var samþykkt mótatkvæðalaust að fara í framkvæmdir við lagningu loftlínu frá Hafnarfirði að Fitjum í Reykjanesbæ. Í dag, 17 árum síðar, bólar ekkert á framkvæmdinni þrátt fyrir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi sagt að fyrir liggi allur lögformlegur samanburður kosta, en svæðisskipulag Suðurnesja og aðalskipulag Voga gera ráð fyrir loftlínu og því beri sveitarfélaginu Vogum að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Virðulegur forseti. Í þessu máli endurspeglast algjört getuleysi þingheims og stjórnvalda til að leysa erfitt mál. Á meðan búa Suðurnesjamenn við öryggisleysi og takmarkanir í orkuflutningum, eins og kom berlega í ljós í rafmagnsleysinu 16. janúar sl. Ef fólk og fyrirtæki á Suðurnesjum geta ekki treyst á örugga afhendingu af nægu rafmagni þá mun það hafa áhrif. Fyrirtæki hætta að vaxa og ný fyrirtæki róa á önnur mið. Ég hef flutt frumvarp sem gæti höggvið á hnútinn en engir þingmenn Suðurkjördæmis nema Sjálfstæðismenn styðja frumvarpið.

Ég spyr því hæstv. innviðaráðherra: Hvaða verkfæri hefur ráðuneytið eða Skipulagsstofnun, sem heyrir undir ráðuneytið, til að höggva á þennan hnút? Hvaða viðræður hafa átt sér stað af hendi ráðherra við sveitarstjórn Voga til að leysa málið? Ráðherra sagði opinberlega 19. desember sl. að hann útilokaði ekki lagasetningu til að ljúka málinu. Hvenær má vænta þeirrar ákvörðunar?