Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Við erum hingað komin, enn og aftur, til að ræða þetta leiðindamál. Vitanlega er sérkennilegt að við séum að ræða það hér í þingsal þegar þingmenn meiri hlutans eru búnir að kalla eftir að málið verði sent aftur til nefndar, en bara þegar umræðunni er lokið, og búnir að boða að það verði gerðar breytingar á því, sem við fáum sömuleiðis ekki nánari upplýsingar um. En við höldum þá bara áfram þessari umræðu á þeim forsendum sem okkur eru gefnar sem er það frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagt fram. Þrátt fyrir að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi gert breytingartillögur við frumvarpið þá lúta þær að bráðabirgðaákvæðum sem er svona eins og vanalega til að bjarga tilteknum hópi fyrir horn sem náð hefur í fjölmiðla en ekki til að leysa nein kerfisbundin vandamál, enda er þessu frumvarpi ekki ætlað að leysa nein kerfisbundin vandamál, eins og mér hefur verið tíðrætt um hér í þessari pontu og annars staðar.

Mig langar örstutt að árétta nokkuð sem kom fram í máli hv. þm. Diljár Mistar Einarsdóttur í samtali okkar sem átti sér stað opinberlega nýlega varðandi það að það sé óréttlátt, ósanngjarnt, að tala eins og þingmenn viti ekkert hvað þeir eru að gera og viti ekkert hvað þeir eru að tala um. Sannarlega var það rétt hjá hv. þingmanni að sú er hér stendur hefur pínulítið talað á þann veg. En það sem mig langar að árétta er að það er gert af fullri virðingu. Það er af fullri virðingu sem ég er sannfærð um það að margir þeirra þingmanna sem ætla sér að samþykkja þetta frumvarp átti sig ekki á því hvað þau eru að samþykkja. Það er einmitt af þeirri virðingu sem ég hef þessa skoðun vegna þess að ég trúi því ekki, ég held í alvörunni ekki, alveg einlægt, að allir þeir þingmenn sem það stefnir í að muni samþykkja þetta frumvarp hér í þessum þingsal þannig að það verði að landslögum séu sammála þeim aðgerðum sem þarna standa til. Ég held að þau séu ekki á þeirri línu að þetta séu góðar breytingar. Ég er á þeirri skoðun að ef menn myndu átta sig almennilega á því þá væru þau ekki að fara að greiða atkvæði með því. Það er það sem ég á við.

Það er ekki það að ég telji hv. þingmenn ekki geta sett sig inn í málið eða ekki hafa unnið heimavinnuna sína eða annað slíkt. Þetta mál er bara þess efnis, það er flókið, það er lögfræðilega mjög flókið og þungt í vöfum, þungt að skilja af lestri frumvarpsins einum saman, mikið af bæði rangfærslum og misvísandi skilaboðum í greinargerð með frumvarpinu. Því hef ég ákveðið, eins og ég hef nefnt hér áður, að mér, hafandi skilning á málaflokknum, reynslu af málaflokknum, beri skylda til þess að reyna þó að tryggja að fólk geri sér fulla grein fyrir hvað það er að samþykkja. Ef fólk er síðan að því loknu sammála þessu og til í þetta þá er það bara svoleiðis og ég hef lýst því yfir líka í þessari pontu. Ég geri mér grein fyrir því að það er meirihlutavald á þessu þingi og ef meiri hluti þingmanna vill samþykkja þetta mál þá verður það samþykkt hér í þingsal. Ég geri mér grein fyrir því og hef ekkert í hyggju til að koma í veg fyrir það. Hins vegar mun ég ekki geta fest svefn ef þessi lög fara í gegn án þess að það sé algjörlega á tæru að fólk átti sig á því hvað það er að samþykkja. Ég vildi bara árétta þetta í ljósi þess sem hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir sagði vegna þess að ég óttast að fólk misskilji þau orð mín þegar ég segi að ég telji fólk ekki hafa áttað sig á því hvað við erum að samþykkja hérna. Það er af einskærri virðingu fyrir hv. þingmönnum.

Ég var enn að tala um, í minni síðustu ræðu — mér sýnist ég ekki geta tekið upp þráðinn þar sem ræðutími er ákaflega stuttur í þessari umferð, fimm mínútur í senn, þannig að ég ætla bara rétt að nota tækifærið og kannski rifja upp hvar ég var stödd síðast af því það eru nú komnir nokkrir dagar síðan. Ég var sem sagt að fjalla um ákvæði 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um sjálfkrafa kæru, einungis í ákveðinni tegund mála og lögbundinn, tiltekinn frest til að skila greinargerð vegna kæru. Þetta er 2. gr. frumvarpsins og ég mun taka upp þráðinn þar sem ég hætti síðast í tengslum við þá grein í næstu ræðu minni og óska eftir því við forseta að hann setji mig aftur á mælendaskrá.