154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnum í gær fór ég í samtal við hæstv. forsætisráðherra um það ótrúlega fjárhagslega ofbeldi sem átti að eiga sér stað um áramótin þegar átti að svipta 3.000 manns, eldri borgara og öryrkja erlendis, 65.000 kr. í persónuafslátt á mánuði. Þetta eru um 2 milljarðar kr. sem átti að ná þarna og ég spyr mig hvort það eigi að ná þessum 2 milljörðum af þessum hópi til þess að láta hann fá þá aftur þegar það á að endurskoða almannatryggingar og málefni öryrkja. En það sem kom mér mest á óvart er að þetta var hægri höndin, Sjálfstæðisflokkurinn, sem setti þetta inn, fjármálaráðherra. Skatturinn djöflaðist á Tryggingastofnun ríkisins eins og hann gat til að fá TR til að brjóta lög vegna þess að það er búið að fresta þessu. En það sem er merkilegast við þetta er að í svari hæstv. forsætisráðherra kemur fram að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fresta þessu til að kanna áhrif ákvæðisins betur og afla frekari upplýsinga. Af hverju var það ekki gert áður en þetta var lagt til? Er það í stefnu þessarar ríkisstjórnar að byrgja brunninn eftir að allir eru dottnir ofan í hann? Það hlýtur að vera stórfurðulegt að á sama tíma og vinstri höndin hefur ekki hugmynd um hvað sú hægri er að gera þá situr Framsókn og sér ekki, talar ekki, heyrir ekki — bara stikkfrí þegar verið að ráðast á þá sem eru veikastir. Við eigum að trúa því að núna fram undan sé endurskoðun almannatrygginga fyrir öryrkja. Ef þetta eru vinnubrögðin þá segi ég: Guð hjálpi öryrkjum. Ég studdi heils hugar þessa endurskoðun en ég er kominn með í hnút í magann. Og ég segi líka: Ég er kominn með hnút í magann því ef þetta eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, hvernig verða þá vinnubrögðin þegar á að fara að taka virkilega á málum t.d. Grindvíkinga? Ég segi bara: Guð hjálpi okkur öllum.