154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Orkumál.

[14:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu hér og er þetta að sjálfsögðu eitt stærsta málið sem við tökumst á við sem þjóð af því að við erum þjóð sem er með hvað bestu lífsskilyrði og skorum hvað hæst á öllum velferðarmælikvörðum og það mun ekki verða þannig, þau lífskjör sem eru á Íslandi munu ekki verða þau sömu eða betri nema með aukinni orkuöflun og orkunýtingu. Það er algjörlega kristaltært. Við þurfum að hafa það á hreinu að ef við ætlum að gera betur fyrir okkar minnstu bræður og systur og annað slíkt þá leysist það m.a. með orkuöflun og öflugu atvinnulífi í framhaldi. Við þurfum líka að horfa í þær náttúruaðstæður sem eru um allt land, ekki bara á Reykjanesi. Reykjanes er náttúrlega gríðarlega stórt og gætum við misst þar út orkuöflun að verðmæti 275 MW, ef heita vatnið og virkjunin fer. En við erum með fleiri eldstöðvakerfi sem eru að láta kræla á sér mjög nálægt stöðum þar sem um helmingur allrar orku landsins er framleiddur. Eldsumbrot og hraun getur líka farið yfir flutningsleiðir fyrir þessa orku. Við þurfum að hafa öfluga orkuöflun og orkudreifingu um allt land. Það styrkir líka byggðirnar í landinu og tryggir að velferðin nái til allra landsmanna. Því þurfum við, til þess að tryggja orkuöryggi og velferð í þessu landi, að taka höndum saman um það að við ætlum að auka orkuöflun og gera það vel. Við höfum gert það vel hingað til. Það hefur tryggt okkur þessa velferð. Og til þess að öll þau góðu verkefni sem hæstv. ráðherra fór hér yfir gangi hraðar fyrir sig, þetta gangi hraðar, þá þurfum við að treysta sjálfum okkur til að gera þetta eins vel og við höfum gert hingað til án þess að hafa miklar lagaflækjur og tafir og skrautfjaðrir til þess að tefja þessi mál.