132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:22]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram hér í þingsalnum um þetta mikilvæga málefni sem snertir rammalöggjöf um háskóla. Þetta frumvarp er eðlilegt næsta skref í stefnu okkar til að verða fremsta þekkingarsamfélag í heimi árið 2010 og við teljum það rétt eftir þá miklu þenslu sem hefur átt sér stað á sviði háskólamála og innan háskólasamfélagsins. En við erum búin að ná því markmiði okkar að fjölga háskólanemum, ekki bara töluvert heldur tvöfalt. Þeir eru nú orðnir ríflega 18.000 og 2.000 betur ef teknir eru með þeir nemendur sem stunda nám við erlenda háskóla. Námsframboð og fjölbreytni hefur líka aukist. Það er ljóst að sífellt eru gerðar meiri kröfur um gæði í kennslu og rannsóknum og þær raddir verða æ háværari, sérstaklega í ljósi þeirrar miklu samkeppni sem við stöndum í við erlenda aðila um fólkið okkar þannig að við þurfum að gera skýrar kröfur varðandi gæði námsins. Við setjum mjög mikið fjármagn inn í háskólann og viljum þar af leiðandi gera skýrt skilgreindar kröfur til þess sem þar er boðið upp á. Það gerum við að sjálfsögðu í samvinnu við háskólann. Ég fagna því og þakka fyrir það sem hér hefur verið dregið fram. Við höfum unnið þetta mjög faglega að mínu mati. Við höfum kallað til háskólasamfélagið og unnið þetta að mörgu leyti í samvinnu við þá sem þar eiga hlut að máli.

Það eru ýmsar spurningar sem hafa verið lagðar fram í þessari umræðu en ég vil fyrst byrja á að hnykkja á helstu nýmælunum sem ég kom reyndar inn á í framsöguræðu minni. Menn verða að hafa hugfast að hér er ekki verið að fjalla um fjárhagsmálefni háskóla, það gerum við í gegnum fjárlögin. Það gerum við í gegnum aðrar leiðir. Það er búið að draga það fram af bæði minni hálfu og annarra að við erum að vinna að löggjöf um ríkisháskólana, sérlöggjöf um þá, þar sem m.a. verður tekið á þeim málum sem menn hafa verið að impra á hér. En með þessu frumvarpi tekur það til háskóla án tillits til rekstrarforms og þá skiptir ekki máli hvort háskólinn er ríkisstofnun eða hlutafélag, eða sjálfseignarstofnun. Þessi rammalöggjöf nær til allra. Það eru sömu gæðakröfur gerðar til allra háskóla, sem er mjög þýðingarmikið, ekki síst í ljósi þeirrar samkeppni sem við erum í og þess metnaðar sem við höfum sýnt varðandi starfsemi háskóla. Það er líka rétt að draga fram þá nýbreytni að með þessu munum við viðurkenna háskóla og það kemur í stað starfsleyfis. Viðurkenning hvers háskóla er bundin við hin tilteknu fræðasvið sem ég kom inn á og síðan hafa háskólarnir sjálfdæmi, en það skiptir miklu máli fyrir sjálfstæði háskólanna að þeir hafi sjálfdæmi um námsframboð innan þeirra fræðasviða sem viðurkenningin nær til. Síðan er rétt að draga fram að það er gerð og gefin út sérstök viðmiðun um æðri menntun og prófgráður og þau viðmið verða sett fram af hálfu menntamálaráðuneytisins. Þá verður í fjórða lagi aukið eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna og síðan eru ákvæði er snerta rétt nemenda sem eru styrkt og efld og gerð skýrari.

Mér fannst sumir hverjir ekki hafa áhuga á frumvarpinu sem slíku, kannski er það bara misskilningur hjá mér. Því mér fannst lítið rætt um þau stóru og miklu atriði sem felast í frumvarpinu varðandi gæðamálin, varðandi þær auknu kröfur sem við leggjum fram í frumvarpinu um leið og við undirstrikum sjálfstæði háskólanna. En gott og vel. Það var m.a. spurt hvort ekki ætti að fara þá leið sem Rúnar Vilhjálmsson prófessor kom inn á í grein sinni um gæðamál í háskólum, Gæðavandinn á háskólastiginu, að það þyrfti sjálfstæðar matsstofnanir. Ég vil taka fram að ég er ekki sammála því að setja á stofn sérstaka ríkisstofnun sem eingöngu hefur það hlutverk að hafa eftirlit með háskólunum. Miklu frekar tel ég að rétt væri að fara þá leið sem er farin í 14. gr. frumvarpsins varðandi ytra eftirlitið, að menntamálaráðherra getur falið nefnd, stofnun, þess vegna ríkisstofnun, en líka einkaaðilum, fyrirtækjum eða öðrum til þess bærum aðilum innlendum sem erlendum að annast almenna umsýslu með ytra mati á kennslu og rannsóknum. Og að framkvæmd ytra mats skuli falin óháðum aðila og að því skuli að jafnaði koma bæði innlendir og erlendir sérfræðingar og fulltrúar nemenda.

Ég tel þetta afskaplega mikilvægt ákvæði að við vitum að það eru mjög reyndar eftirlitsstofnanir starfræktar erlendis, t.d. í Skotlandi og Bandaríkjunum, bæði einkastofnanir og ríkisstofnanir, og ég tel að við Íslendingar hefðum mikinn hag af að nýta þjónustu slíkra stofnana og reyna að fara í samstarf við bæði innlenda en ekki síður erlenda aðila sem koma þá að því að taka þátt í því sem við köllum ytra gæðaeftirlit. Ég sé að hv. þingmaður Björgvin G. Sigurðsson kinkar kolli og það þýðir iðulega að maður sé sammála því sem verið er að segja. (BjörgvS: Eða hugsi.) Eða er mjög hugsi, ég veit ekki hvort er.

En ég held að það sé mikilvægt að við höldum þessum sveigjanleika. Að við niðurnjörvum ekki ferlið, þ.e. hver gerir hvað hverju sinni, heldur náum að meta hvaða fræðasvið við erum að meta, hvaða deild við erum að meta. Í einu tilfellinu getur verið betra að leita til Skotlands eða Írlands og í öðru tilfellinu til innlendra sérfræðinga sem eru starfandi hér heima. Þannig að stóra atriðið er að við erum að negla betur niður, ramma betur inn, mikilvægi þess að það sé haft bæði innra og ytra eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna.

Mönnum hefur verið tíðrætt um fjármál háskóla og við höfum náttúrlega haldið margar ræður um þau málefni. Bara þannig að nokkur atriði séu ljós. Við höfum stóraukið framlög til háskólamála. Það er eins og menn hlusti aldrei á það. Það er verið að auka framlög til háskólanna. En auðvitað má alltaf gera betur og koma með meiri og meiri yfirboð. Ég tel það vera réttu leiðina, og við erum að sýna fram á að ríkisvaldið, og það má alveg draga það fram að við höfum þurft að auka við framlög til háskóla síðan 1995 að minnsta kosti, að við höfum verið að gera það með myndarlegum hætti og sérstaklega á síðustu árum. Menn sjá það þegar menn skoða fjárlagafrumvarpið að við höfum verið að bæta hressilega í. Við höfum ekki farið þá leið, eins og svo margar aðrar þjóðir hafa gert varðandi nemendaaukninguna að skerða nemendaframlögin. Við höfum einmitt reynt að halda í við þau. Þannig að leiðin til þess að efla framlögin til háskólamála er að ríkisvaldið og hið opinbera auki framlög sín, sem við munum gera. Rektor London School of Economics sagði í ræðu sem hann hélt á ráðstefnu núna í vikunni, að það væri mikilvægt fyrir háskólasamfélagið að bæði einkaaðilar og hið opinbera fjármögnuðu háskólastarf því að hagsmunir allra væru fólgnir í því að hafa öfluga háskóla og ég get tekið undir það. Bretum hefur tekist mjög vel að fá allt samfélagið, hið opinbera sem einkaaðila, til þess að fjármagna háskólastarfið.

Varðandi skólagjöldin þá er það alveg rétt að það er skoðun mín, og ég hef sagt það, að ef setja á skólagjöld eigum við fyrst að huga að því hvað það þýðir fyrir námið og þá sérstaklega meistara- og doktorsnám. En svo það sé alveg skýrt þá tel ég ekki að setja eigi á skólagjöld til að leysa fjárhagsmál háskólanna, engan veginn. Skólagjöldin sem slík eiga ekki að leysa fjárhagsmál háskólanna, leysa verður þau á annan hátt með framlögum ríkisins og reyna að fá fleiri aðila til að koma að þeim málum. Skólagjöld eru að mínu mati ákveðin tæki til að styrkja innviði og við sjáum það erlendis frá að þau hafa verið að styrkja innviði skólasamfélagsins en þau eru ekki lausnin til að leysa fjárhagsmál háskólanna. Ég vil ekki nálgast málið út frá þeirri forsendu að skólagjöldin verði sett á bara til þess að leysa allt. Svo er ekki. Við þurfum að nálgast þá umræðu á miklu breiðari grunni en svo og ég mun ekki beita mér fyrir því, a.m.k. á þessu þingi, að sú umræða í formi frumvarps um skólagjöld verði tekin. Við eigum miklu lengra í land en svo að við förum að ræða skólagjöldin sem slík hér.

Varðandi það að sitja við sama borð, þá erum við komin svolítið að þeirri stórpólitísku spurningu sem hefur náttúrlega greint þá sem fara með meiri hluta á Alþingi frá minni hlutanum, og þá sérstaklega Samfylkinguna en þar má líka nefna vinstri græna. Við höfum sagt að til að efla flóruna í háskólasamfélaginu og til að auka fjölda nemenda þurfum við að fara leið samkeppninnar og við ákváðum að fara samkeppnisleiðina. Okkur hefur tekist í gegnum samkeppnina að fjölga háskólastúdentum, auka námsframboðið og auka líka um leið fjárframlögin til háskólanna. Við það hafa ekki allir sætt sig og það kemur skýrt fram í ræðum margra hér, þó ekki allra, sem greinilega skilja og skynja mikilvægi þess að halda uppi samkeppni í háskólasamfélaginu. En til þess að það sé dregið fram þá er ekki hægt að bera saman framlög ríkisins til ríkisháskóla og framlög ríkisins til þeirra sem kallast einkaháskólar því að framlög ríkisins til einkaháskólanna eru á sviði kennslu sem er grundvölluð á samningi við ráðuneyti menntamála, en framlög til Háskóla Íslands, Kennaraháskólans og Háskólans á Akureyri grundvallast annars vegar á kennsluframlagi og hins vegar á rannsóknarframlagi. Þetta er einfaldlega ekki hægt að bera saman. En ef við tökum einfaldlega ríkisframlag til háskólanna þá eru hlutföllin hærri á nemenda í ríkisháskólunum en til einkaháskólanna svo það sé alveg skýrt.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spurði mig hvort við værum að fara þá leið í þessu frumvarpi að skilgreina háskóla í kennsluháskóla og rannsóknarháskóla. Við erum ekki að því. Það sem við gerum hins vegar er að fara mjög víðtæka leið sem felur í sér víðtæka skilgreiningu og það er til þess að halda öllum möguleikum opnum. Það kann að vera að einhverjir telji að ákveðnir háskólar séu starfræktir sem kennsluháskólar en við verðum að veita þeim svigrúm til að þróa áfram rannsóknir.

Ég bendi á ályktanir Vísinda- og tækniráðs varðandi framlög til háskóla þar sem sérstaklega er hnykkt á því að efla verði grunnframlög til háskólanna og styrkja þau til að háskólarnir geti keppt um framlög úr samkeppnissjóðunum. Við ákváðum að fara þá leið að samkeppni á sviði rannsókna og vísinda yrði efld og háskólarnir mundu keppa um fjárhæðir á grundvelli þeirra rannsókna sem best væru metnar. Að sjálfsögðu þurfa háskólarnir að hafa ákveðin grunnframlög og Vísinda- og tækniráð hefur ákveðið að fara þurfi í það en m.a. á þeirri forsendu að hugsanlega þurfi að árangurstengja það framlag og ég held að það sé mjög mikilvægt að við árangurstengjum þau framlög til rannsókna sem við beinum til háskólanna. Rannsóknarframlögin eru mjög misjöfn, þau eru náttúrlega langhæst til Háskóla Íslands og ég tel það alls ekkert óeðlilegt, enda er sá háskóli með mestu reynsluna og víðtækasta námsframboðið og í rauninni mjög eðlilegt að þannig sé staðið að því. Engu að síður er verið að efla rannsóknir hjá öðrum háskólum, Kennaraháskólanum, Háskólanum á Akureyri og einnig Háskólanum í Reykjavík. Við erum með ákveðinn samning sem liggur því til grundvallar sem stefnir að því að rannsóknarframlag eftir um þrjú eða fjögur ár verði 28–29% miðað við að Háskóli Íslands hafi þá um 48% miðað við kennsluframlagið. Verið er að efla rannsóknir innan háskólanna, verið er að beina meira fjármagni í þá veru að efla rannsóknir. Ég vil að menn hafi það hugfast að við höfum stóraukið fjárframlög til rannsókna en það hefur farið í sjóðina. Það er úr meiru að spila í gegnum sjóðina en hefur nokkru sinni áður verið.

Ég tel að ég hafi farið yfir þá punkta sem menn hafa spurt hér um nema það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurði um fjarnámið og 22. gr. Þá vil ég sérstaklega draga fram að þetta kemur ekki til með að skerða neina möguleika varðandi fjarnámið og dreifnámið. Aðalmálið er alltaf skilgreiningin á því hvort viðkomandi nám falli undir grunnnám, meistaranám eða doktorsnám og falli undir ákveðin fræðasvið. Menn verða að hafa hugfast hvernig þeir skilgreina námið, hvort um endurmenntun sé að ræða (Forseti hringir.) eða fræðilegt og akademískt háskólanám.

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og fagna því að málið skuli brátt vera komið í hendur hv. menntamálanefndar.