133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

afgreiðsla frumvarps um RÚV.

[13:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort henni finnist yfirleitt stætt á því að taka þetta þingmál til afgreiðslu og gera frumvarp ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu RÚV að lögum í dag í ljósi þeirra upplýsinga sem hér eru að koma fram og hefðu átt heima í umræðu um þetta mál.

Það hefur komið hér fram að í stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur orðið samdráttur á tekjustofnun Ríkisútvarpsins sem á árabilinu 1996–2004 skrapp saman um 15%. Það hefur komið fram. (Gripið fram í: Er þetta um fundarstjórn forseta?) Já, þetta er um fundarstjórn forseta vegna þess að þingið hefur ekki fengið upplýsingar sem því bar samkvæmt þingskapalögum. Þegar þessar alvarlegu upplýsingar koma nú fram er eðlilegt að beina því til stjórnar þingsins hvort stjórn þingsins þyki eðlilegt að taka málið til afgreiðslu.

Hér er að koma fram að á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 er rekstrarhalli á Ríkisútvarpinu tæpur hálfur milljarður króna og hefur stórvaxið frá því sem áður var. Ég vek athygli þingsins á því að þegar hæstv. menntamálaráðherra kemur hér upp og segir að verið sé bæta fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins til langs tíma, þá er það bara alrangt. Hvað sem gildir um skammtímalausnir, hvað sem um þær gildir þá er það alrangt að það sé verið að bæta fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins.

Hvers vegna í ósköpunum ætti útvarpsstjórinn þá að koma á fund menntamálanefndar og segjast ætla að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins með 6% hagræðingarkröfu? Hvað þýðir 6% hagræðingarkrafa? Það er niðurskurður um 6%, bæði í mannahaldi og útgjöldum Ríkisútvarpsins. Á þennan hátt á að bæta stöðu Ríkisútvarpsins.

Hæstv. forseti. Ég ítreka spurningu mína því að hún fjallar einmitt um fundarstjórn forseta: Er virkilega tækt að taka þetta frumvarp til afgreiðslu nú í ljósi þeirra upplýsinga sem þinginu eru að berast og eru ekki samkvæmt þingskapalögum? Þessar upplýsingar áttu að liggja fyrir í desembermánuði og áttu að liggja fyrir þegar við hófum 3. umr. um Ríkisútvarpið ohf. Þess vegna ítreka ég spurningu mína og hún er borin fram í fullri alvöru.