133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

afgreiðsla frumvarps um RÚV.

[14:04]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætla að ræða um fundarstjórn forseta öfugt við hv. síðasta ræðumann. Ég ætla að leggja forseta til rök í því máli sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur vakið máls á.

Auðvitað komu þær upplýsingar sem nú hefur verið dreift ekki fram í skýrslu matsnefndar um stofnefnahagsreikning ósköp einfaldlega vegna þess að sú skýrsla er frá í nóvember. Þá voru þessar upplýsingar ekki komnar fram. Ég man heldur ekki eftir, ég er nú ekki með þetta á borðinu hjá mér, að þetta yfirlit um reksturinn á fyrri hluta ársins komi fram í þeim reikningi.

Það er líka þannig, forseti, að það sem við erum að fara að gera á eftir er að samþykkja eða fella tillögu í frumvarpi menntamálaráðherra um upphæð nefskatts. Við þær upplýsingar sem fram hafa komið vaknar að sjálfsögðu spurning um hvort sú upphæð er rétt, hvort hún dugar. Þarf að hækka nefskattinn, þarf að gera þetta enn óréttlátara, herra forseti, til að koma þessu fyrir miðað við þær upplýsingar sem nú eru?

Það er líka rétt að í fjáraukalögum er upphæð sem ætlað er að hala Ríkisútvarpið upp í 15% eiginfjárhlutfall. Hér er enginn fjármálaráðherra, en er það rétt tala miðað við þær upplýsingar sem nú eru komnar fram? Getur hæstv. menntamálaráðherra svarað því (Forseti hringir.) — forseti, ég er að tala um fundarstjórn forseta — eða er okkur ætlað að taka hér ákvörðun á grundvelli upplýsinga sem eru rangar eða vitlausar?