133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:10]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Með þessu frumvarpi er ekki skapaður sá starfsrammi sem Ríkisútvarpinu hæfir til frambúðar sem almannaútvarpi og þar með ekki tryggður sá starfsfriður sem Ríkisútvarpinu er nauðsynlegur. Það er líklegt að samþykkt frumvarpsins leiði til enn ákafari deilna en áður um stöðu Ríkisútvarpsins og til málaferla heima og erlendis, ekki síst vegna þess að staða Ríkisútvarpsins gagnvart samkeppnisrétti og sérreglum Evrópuréttarins um útvarp í almannaþjónustu er óljós. Með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag er stigið varhugavert skref sem í sambærilegum tilvikum hefur langoftast leitt til þess að viðkomandi stofnun eða fyrirtæki er selt úr almannahöndum. Stjórnunarhættir þeir sem gert er ráð fyrir opna leið til áframhaldandi flokkspólitískra áhrifa og inngripa, réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins eru samkvæmt frumvarpinu í uppnámi og ekki er sennilegt að hinn óréttláti nefskattur efli samstöðu meðal almennings um málefni Ríkisútvarpsins.

Við stjórnarandstæðingar höfum sýnt í þeirri umræðu sem nýliðin er og þeim sex öðrum sem farið hafa fram um þetta mál að til eru aðrar leiðir og þær eru bæði færar og eðlilegar. Við höfum nú að lokum lagt fram sameiginlega yfirlýsingu okkar um framtíð Ríkisútvarpsins og endurskoðun á málefnum þess á næsta kjörtímabili. Við höfum lagt okkur fram um að koma á sáttum í málinu, að finna leiðir til sátta, en slíkum boðum hefur öllum verið hafnað. Þar hefur einkum staðið í vegi hinn sári metnaður Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, hæstv. menntamálaráðherra.

Við samfylkingarmenn berum ásamt öðrum stjórnarandstæðingum fram frávísunartillögu á frumvarpið. Ef hún verður felld verður þess enn freistað að ná sáttum um að fresta gildistöku frumvarpsins þar til eftir kosningar. Gangi það ekki sitjum við hjá við tæknilegar breytingartillögur stjórnarmeirihlutans en greiðum atkvæði gegn frumvarpinu sjálfu, segjum nei við þessu frumvarpi.