133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[16:42]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé töluverð óskhyggja af hálfu hv. þingmanns að telja að þeir sem verða skipaðir í stjórn þjóðgarðsins af svæðisráðunum kunni að verða sóttir út fyrir svæðin. Ég á ekki von á því og mér þætti þá Bleik þeirra landsbyggðarmanna nokkuð brugðið ef svo yrði.

Ég er ekki heldur sammála hv. þingmanni um að það sé endilega nauðsynlegt að í stjórn svona þjóðgarðs veljist einhver sem hafi mikla sérfræðiþekkingu á þjóðgörðum og rekstri þeirra. Ég held miklu frekar að það sem skipti máli sé að þangað veljist fólk sem hefur nokkuð góða skynsemi til að ráða og reynslu af lífinu. Það verður nóg af sérfræðingum sem koma að þjóðgarðinum í formi starfsmanna og þeirra sem eru ráðnir beinlínis í krafti sérfræðiþekkingar sinnar til þess að gefa góð ráð. Hér talar 1. þingmaður Reykv. n. af reynslu. Hann er eins og kunnugt er hreppstjóri ásamt tveimur öðrum þingmönnum yfir Þingvallaþjóðgarði. Þeir sem þar sitja hafa enga sérstaka þekkingu af rekstri þjóðgarða. En þeir hafa úrvalsstarfsmenn sem þeir geta leitað til og fá bráðum liðsauka. Hins vegar þurfa stjórnendur yfir svona fyrirbæri, eins og þjóðgarði, að vera hæfir til að leggja góða pólitík um aðgengi og hvernig á að nota hann o.s.frv.

Það sem fyrir mér vakir að hreyfa þessu máli, sem ég vona að umhverfisnefnd skoði, er ekki að leggja stein í götu málsins heldur einfaldlega að viðra þetta sjónarmið. Ég tel að þarna sé um slíka perlu og gersemi að ræða sem á sér svo mikinn bólstað í hjörtum allra landsmanna að æskilegt væri að öllum fyndist sem þeir ættu hlutabréf í því sólskini.