135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

siglingar olíuflutningaskipa í efnahagslögsögunni.

[15:24]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Á umræðufundi Stofnunar Sæmundar fróða og Umhverfisstofnunar á fimmtudaginn var kom fram að frá árinu 2004 hafa olíuflutningaskip frá Múrmansk siglt hér sunnan og norðan við landið á leið sinni til Norður-Ameríku. Þar kom fram að á síðasta ári, árinu 2007, hafi 212 skip farið þessa leið, og ríflega fimmtungur, 47 skip, fór norðan eða sunnan við Ísland. Þessi 47 skip fluttu 2,2 millj. tonna af olíu.

Það var ljóst á þessum fundi að bæði Umhverfisstofnun og Landhelgisgæslan hafa af þessu nokkrar áhyggjur enda eru siglingar þessar allt annars eðlis, á allt öðrum svæðum og háskalegri siglingaleiðum en þær sem venjulegir vöruflutningar til og frá landinu fara um og þar sem viðbragðsáætlanir hafa verið uppi. Menn óttast auðvitað olíuslys, að missa þessi skip upp í fjöru eða í ís, og þann umhverfisskaða sem af því kann að hljótast.

Ég hef spurt hæstv. umhverfisráðherra hvað líði viðbragðsáætlun vegna þessa, en það er ljóst að það þarf einnig nýjan tækjabúnað og viðbrögð hjá Landhelgisgæslunni til að geta brugðist við ef eitthvað ber út af. Því spyr ég nú hæstv. dómsmálaráðherra hvernig Landhelgisgæslan sé í stakk búin til að hafa eftirlit með þessum siglingum og eftir atvikum leiðbeina eða aðstoða þessi skip í neyð. Þá meina ég þessar transit-siglingar sem fara utan venjulegra siglingaleiða til landsins og eru á alþjóðlegum siglingaleiðum.