135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[15:37]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt tveimur öðrum hv. þingmönnum, Gunnari Svavarssyni og Katrínu Júlíusdóttur, að leggja fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. Um er að ræða 8. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um forseta lýðveldisins og handhafa forsetavalds. Í greininni er kveðið á um það að þegar sæti forseta lýðveldisins er laust, eins og þar stendur, og hann getur ekki sinnt störfum vegna sjúkleika eða ferðalaga eða af öðrum ástæðum skuli þrír háttsettir embættismenn, þ.e. forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar, fara með forsetavald. Gerð er tillaga um það í þessu frumvarpi að niður falli orðin „vegna dvalar eða ferðalaga erlendis“.

Að gefnu tilefni skal nú tekið fram að hvorki hæstv. forsætisráðherra né aðrir þurfa að hafa af því áhyggjur að hér sé gerð krafa um að samþykkja þetta frumvarp þegar í stað, enda stendur ekki til að fara fram á þingrof og nýjar kosningar af því tilefni, heldur er þetta frumvarp lagt fram til umræðu og skoðunar og lagt til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til sérstakrar stjórnarskrárnefndar þannig að allir geti væntanlega sofið rólega vegna afgreiðslu þessa máls.

Stjórnarskráin sem við búum við er að stofni til með nokkrum breytingum frá 1944 þegar lýðveldið var stofnað. Að mörgu leyti reyndist þessi stjórnarskrá okkur góður vegvísir og traustur grunnur þegar þjóðin fékk sjálfstæði sitt með lýðveldistökunni, og æ síðan. Í henni má finna fjölmörg ákvæði sem staðist hafa tímans tönn, enda er þar byggt í meginatriðum á grundvelli þrískiptingar valdsins sem og lýðræðis og mannréttinda sem allt eru hornsteinar heilbrigðs og trausts þjóðfélags.

Í gegnum árin hafa allmargar tilraunir verið gerðar til að hnika til og breyta ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það hefur stundum verið gert, einkum að því er varðar kosningar til Alþingis, en í meginatriðum stendur stjórnarskráin í sinni upprunalegu mynd. Bæði Alþingi og þjóðin hafa verið íhaldssöm og varkár þegar breytinga er krafist. Ég get upplýst að ég álít að það sé rétt stefna að fara varlega í róttækar breytingar á stjórnarskránni. Við eigum ekki að hringla með hana, við eigum því aðeins að breyta henni þegar brýn þörf krefur og almannahagsmunir. Svo er ástæða til að breyta stjórnarskránni þegar lýðum er ljóst að ákvæði hennar eru beinlínis orðin úrelt og engan veginn í takt við tímann og þróunina í samfélaginu. Af þessum ástæðum er breytingin lögð til, hún er af því sprottin og til orðin vegna þess ákvæðis sem hér er fjallað um og snertir handhafa forsetavalds.

Á fyrri hluta síðustu aldar var varla um símasamband að ræða innan lands, hvað þá til útlanda. Fjarskiptasamband var nánast ekki til, samgöngur sömuleiðis afar stopular og fólk ferðaðist einkum með skipum til og frá landinu. Menn fóru vart úr landi nema til nokkurra vikna eða jafnvel mánaða og dvöldu þá í útlöndum meira og minna sambandslausir við sitt heimaland. Það var því bæði skynsamlegt og nauðsynlegt á þeim tímum að varnagli væri settur í stjórnarskrána að því er varðaði fjarvistir forseta Íslands. Það var kveðið á um að þegar hann dveldi erlendis skyldu handhafar forsetavaldsins, þrír menn, forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar, taka við forsetavaldinu. Svo hefur verið síðan og er enn.

Við lifum hins vegar á nýrri öld. Við búum við gerólíkt umhverfi, flugsamgöngur sem gera okkur kleift að ferðast til útlanda að morgni og koma jafnvel heim að kvöldi. Við ferðumst oft á hverju ári og sumir svo nemur tugum skipta, forseti Íslands þar á meðal, bæði í opinberar heimsóknir og aðrar. Ferðir hans snerta starf hans að öðru leyti í þágu viðskipta, atburða og athafna sem þýðingarmikið þykir að forsetinn sæki fyrir hönd þjóðarinnar. Núverandi forseti Íslands hefur verið duglegur við að efla útrás, svara kalli fjölmiðla á erlendri grund og koma fram fyrir hönd þjóðarinnar með ýmsum hætti.

Forseti Íslands fer einnig í einkaerindum til útlanda og segja má í stuttu máli, eins og forseti Íslands hefur sjálfur lýst, að hann sé ekki lengur eingöngu til heimabrúks. Enga tölu hef ég um það hversu oft forseti Íslands dvelur erlendis en á því hefur verið vakin athygli í íslenskum fjölmiðlum að í hvert sinn sem hann bregður fæti yfir hafið eru kallaðir til þrír háttsettir embættismenn til að gegna forsetavaldinu. Ég tel að sú vinnuregla sé barn síns tíma, sé óþarfi, hún er kostnaðarsöm og hún er raunar einsdæmi. Ég hef ekki haft spurnir af því að annars staðar í heiminum sé gert ráð fyrir að kjörinn forseti afsali sér völdum við það eitt að bregða sér úr landi og þrír einstaklingar taki við á meðan. Það er ekki svo að forsetinn sé með öllu sambandslaus og vanhæfur til ákvarðana þótt hann sé ekki líkamlega á staðnum á Íslandi. Það er sem betur fer komið á ágætt símasamband við útlönd, tölvur, vefir, fjarskipti og hvaðeina sem fólk getur notfært sér þegar það bregður fæti til annarra landa.

Í þessu ákvæði stjórnarskrárinnar er ekki gerður greinarmunur á því hvort forsetinn skreppi einn eða tvo daga eða hvort hann sé floginn til lengri dvalar erlendis. Það er heldur ekki gerður neinn greinarmunur á því í erindum hvers hann er á ferðalagi. Stjórnarskráin leggur sem sagt þá ófrávíkjanlegu og gamaldags skyldu á herðar þremur öðrum embættismönnum að þeir taki skilyrðislaust við forsetavaldinu þegar forseti Íslands hverfur af landi brott.

Þegar forseti Íslands er kjörinn er hann auðvitað kjörinn. Hvar svo sem hann er staddur hverju sinni er hann áfram forseti. Til dæmis og sér í lagi þegar forseti Íslands er í opinberum erindagjörðum er hann áfram forseti og einmitt boðinn í opinberar heimsóknir af því að hann er forseti, nema hvað? Spurningin verður áleitin: Hvað kallar á þá nauðsyn að kalla til þrjá handhafa forsetavaldsins til að sinna embættisverkum forsetans að honum fjarstöddum?

Ég hef heyrt því fleygt að handhafi forsetavalds þurfi að vera til staðar hverju sinni hér heima vegna undirskrifta laga, en ég hefði haldið að hægt væri að leysa það vandamál án þess að skipa þrjá menn í stað eins undir slíkum kringumstæðum. Auk þess getur staðfesting laga væntanlega beðið einn eða tvo daga ef því er að skipta og ég geri ráð fyrir að þetta sé praktískt vandamál sem hægt sé að leysa með einföldum hætti án þess að skipa þrjá menn sem handhafa forsetavaldsins með ærnum kostnaði eins og upplýst hefur verið.

Hér ber því allt að sama brunni, herra forseti. Að mínu mati og okkar flutningsmannanna er þetta stjórnarskráratriði útbrunnið og úrelt. Við teljum rétt að afnema það og breyta í samræmi við nútímann. Ég geri ráð fyrir að hér geti orðið umræða um þetta frumvarp og að menn láti skoðanir sínar og sjónarmið koma fram þannig að þetta mál geti verið til áframhaldandi umræðu, bæði á þingi og í þjóðfélaginu. Þessu er varpað fram til hugleiðingar og til athugunar fyrir þær tvær til þess bæru nefndir og ég geri mér þá vonir um að eftir umræðu og meðferð í sérstakri stjórnarskrárnefnd geti kannski fæðst endanlega, áður en þessu kjörtímabili lýkur, tillögur sem ganga í þessa átt.