135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:00]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Það er afar brýnt að halda jafnréttisumræðunni á lofti og að hún fari fram hér í sölum Alþingis. Ég tel að þessi umræða megi alls ekki falla niður og alltaf er brýnt að farið sé með málefnalegum hætti í gegnum hana.

Ég er þeirrar skoðunar að það að breyta starfsheiti ráðherra sé ekki í augnablikinu þarft innlegg í jafnréttisumræðuna. Hún á að mínu mati að fara fram en það eru stærri og brýnni verkefni sem ræða þarf á undan. Það er aldrei lummó í mínum huga að ræða jafnréttismál og það má aldrei verða þannig.

Við framsóknarmenn höfum staðið okkur mjög vel í jafnréttismálum. Það er mjög ánægjulegt að segja frá því að fyrir síðustu þingkosningar voru nákvæmlega jafnmargar konur og karlar í framboði fyrir Framsóknarflokkinn. Það voru 126 einstaklingar sem skipuðu listana, 63 karlar og 63 konur. Þrjár konur og þrír karlmenn leiddu listana og í fjórum efstu sætunum sátu tíu karlar en 14 konur. Það er að mínu mati jafnrétti í orði og á borði.

Ég varð fyrir vissum vonbrigðum þegar ljóst var að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að skipa eina konu í embætti ráðherra og tel að þar hafi Sjálfstæðisflokkurinn misst tækifæri til að sýna að jafnréttismál væru þar ofarlega á borði. Að sama skapi var ánægjulegt að sjá að Samfylkingin skyldi stilla upp jafnmörgum konum og körlum sem ráðherrum en ég hefði viljað að ungu fólki hefði verið gert hærra undir höfði en þar var gert og í sumum tilvikum má segja að gengið hafi verið fram hjá ungu fólki sem mér þykir afar miður vegna þess að Samfylkingin á afar öflugt ungt fólk.

Valgerður Sverrisdóttir var fyrst kvenna til þess að gegna starfi utanríkisráðherra. Hún skipaði nefnd sem fjallaði um hlutdeild kvenna í stjórnum fyrirtækja. Hlutfall kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja var og er nokkuð lakara en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum, reyndar talsvert lakara en í Noregi og Svíþjóð. Ekki er þó hægt að merkja almennt mikinn mun á hlutfallstölum íslenskra fyrirtækja annars vegar og breskra, bandarískra og kanadískra fyrirtækja hins vegar. Íslensk fyrirtæki sem skráð eru á hlutabréfamarkað eru því miður með áberandi lægra hlutfall kvenna í stjórnum heldur en í samanburðarlöndunum. Ég tel að mikill ávinningur sé af fjölbreytileika, að ákvarðanir stjórna taki meira mið af markaðnum og að virkja konur í yfirstjórn fyrirtækja, hagnýti hæfni og þekkingu sem fyrirtækið mundi ellegar fara á mis við.

Nefndin skilaði niðurstöðum eða tillögum um aðgerðir sem áttu að miða að því að efla fyrirtæki og atvinnulíf með því að fjölga konum í stjórnum og áhrifastöðum. Aðgerðirnar áttu að tryggja farveg fyrir umræðu og þekkingaröflun, hvetja fyrirtæki til þess að setja konur á dagskrá og fá karlmenn í áhrifastöðum til þess að gera málið að sínum. Þar að auki átti að birta reglulega lista með upplýsingum um fjölda og hlutfall kvenna í stjórnum og efla tengsl kvenna, víkka leitarskilyrði og sjóndeildarhring við skipanir í stjórnir.

Ég er sjálfur mótfallinn því að forsvarsmenn fyrirtækja séu neyddir til að hafa visst kynjahlutfall í stjórnum sínum en ég tek heils hugar undir þær tillögur sem nefndin lagði fram. Ég tel mjög mikilvægt að akkúrat þessi umræða fari fram hér í sölum Alþingis og við framsóknarmenn munum taka hana upp mjög fljótlega.

Framsóknarmenn beittu sér fyrir því að lögin um fæðingarorlof yrðu að veruleika. Ég tel að það sé eitt mikilvægasta skref sem stigið hefur verið í jafnréttisátt. Það var fyllilega kominn tími á að konur og karlar tækju jafnmikinn þátt í uppeldi barna og ég held að það hafi virkað eins og tilgangurinn með lögunum var.

Ég mundi miklu frekar ræða hér hvort ekki væri kominn tími til þess að lengja orlofið í 12 mánuði. Þá mundi ég líka vilja sjá breytingu um að konur gætu byrjað orlofið nokkrum vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, eða með öðrum orðum, ég held að það sé kominn tími til þess að styrkja þetta kerfi.

Ég er sammála hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur um að við eigum að ræða þessi mál án fordóma. Ég er sammála því að eitthvað nýtt þurfi að koma fram í jafnréttismálum en ég er samt ekki endilega viss um að þetta sé rétta leiðin. Hv. þingmaður nefndi að þetta væri visst birtingarform jafnréttisbaráttunnar. Ég er ekki alveg sammála þeirri nálgun. Ég held að birtingarformið komi miklu frekar fram til að mynda í launum kennara sem ég hef sagt að þurfi að stórhækka. Kennarastéttin er að mestu kvennastétt og rætt hefur verið að launin séu allt of lág og ég held að það sé akkúrat það sem ný ríkisstjórn ætti að beita sér fyrir.

Ég legg aðra merkingu í hvernig orðið „herra“ er notað í þessari merkingu þegar verið er að tala um ráðherra. Sem dæmi notum við orðið „maður“ til þess að aðgreina okkur frá öðrum dýrategundum. Við erum öll menn. Ég held að með þessu sé ekki á nokkurn hátt hallað á konur en öll vitum við að „maður“ er svo líka notaður í annarri merkingu sem aðgreining milli kynjanna, karlmaður og kvenmaður.

Eins tel ég að þótt „herra“ sé titill fyrir karlmann, eða herra Höskuldur Þórhallsson og þá frú Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þá sé önnur merking þegar um er að ræða „ráðherra“. Það er einfaldlega ákveðinn titill sem sýnir í hverju starfið felst. Ég er ekki viss um að við finnum eitthvert betra nafn og er ekki sammála því að finna eigi einhvers konar nýyrði sem breyti 100 ára hefð. Sem dæmi höfum við hið góða orð „ljósmóðir“. Ég mundi ekki vilja breyta því eða finna eitthvert hlutlausara nafn þótt sífellt fleiri karlmenn gegni því starfi. (SVÓ: Það er enginn karlmaður ljósmóðir.) Stigin hafa verið skref í þessa átt varðandi heiti sem hv. þm. Steinunn Valdís rakti hér áðan, eins og fóstrur. Ég er nú ekki alveg sammála því að það hafi verið rétt skref sem þá voru stigin.

Fyrir mér er ekkert karlmannlegt við að segja frú hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir. Ég held að það sé ekkert karlmannlegt við það. Ég held það lýsi starfinu ágætlega.

Ég vil því segja að ég held að þetta sé ekki rétt skref og hefði viljað sjá okkur hér á Alþingi taka upp brýnni mál í jafnréttisumræðunni en það sem hér hefur verið rakið. Það er samt afar brýnt, og ég tek undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur varðandi það, að jafnréttisumræðunni sé haldið hátt á lofti og við gefum ekkert eftir í þeim efnum.