136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir ræðu hans og innlegg. Þingmaðurinn hefur þá sérstöðu að hafa hvort tveggja gegnt stöðu formanns fjárlaganefndar og einnig setið í ríkisstjórn þannig að hann þekkir mjög vel hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig og þrátt fyrir að hér hafi verið vikið að ábyrgð ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans í ræðunni gagnvart ýmsu sem kemur fram í breytingartillögunum ætla ég ekki að víkja að því í þessu stutta andsvari. Stjórnarmeirihlutinn ber auðvitað ábyrgð á þessum tillögum sem hér koma og ríkisstjórnin bar fram við 2. umr. inn í nefndina. Við víkjum okkur ekkert undan þeirri ábyrgð þannig að það liggi alveg ljóst fyrir.

Á sama hátt get ég tekið undir, eins og ég lýsti fyrr í dag í magnaðri ræðu minni, er varðar upplýsingastreymið að það hefði mátt vera meira og betra og ég vonast svo sannarlega til þess að upplýsingastreymi til þingsins almennt verði betra á næstu mánuðum og árum. Við höfum gengist fyrir því á fjárlaganefndarsviði að þessar upplýsingar berist með skýrari hætti. Vissulega vantar ýmsar upplýsingar, grundvallarupplýsingar, eins og hér hefur verið rætt fyrr í dag. Þar af leiðandi tek ég undir þau sjónarmið hv. þingmanns og þakka honum um leið þær upplýsingar sem hann bar hér fram í ræðu sinni og ályktanir um fjármagnskostnað og vaxtagjöld og ýmislegt fleira sem hefur ekki verið í umræðunni í dag.