136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að það sé gert og ég sakna þess að það hafi ekki verið gert áður en þessi umræða fór fram. Það endurspeglar líka það sem hefur komið fram í máli okkar að þessi umræða fer auðvitað fram við mjög einkennilegar aðstæður og hana ber mjög sérkennilega að. Hér kemur inn nánast nýtt fjárlagafrumvarp sem eðlilegast hefði verið að hæstv. fjármálaráðherra hefði mælt fyrir á nýjan leik og hitt frumvarpið þá tekið til baka og samkvæmt þingsköpum færu fram þrjár umræður um það. Það gefst ekki tími til þess.

Þingmönnum stjórnarandstöðunnar hefur ekki gefist góður tími til þess að fara yfir þær tillögur sem hér koma fram. Hér eru mál gjarnan tekin inn með afbrigðum og síðan kvartar þingmaðurinn undan því að engar tillögur komi frá stjórnarandstöðunni. Við tökum umræðuna að sjálfsögðu upp á vettvangi viðkomandi þingnefndar og áskiljum okkur rétt til að koma með breytingartillögur þegar þar að kemur. Til dæmis hefur tekjupakkinn, breytingartillögurnar, ekki komið inn frá ríkisstjórninni. Svo er kvartað yfir því að ekki séu komnar tillögur frá stjórnarandstöðunni. Það kann vel að vera að þær líti dagsins ljós, m.a. tillaga sem lýtur að því sem hv. þingmaður sagðist vera sérstakur talsmaður fyrir, sem er hátekjuskattur. Hv. þingmanni gefst þá tækifæri til þess að sýna vilja sinn í verki þegar þar að kemur.