144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanna Þorsteins Sæmundssonar og Bjartar Ólafsdóttur um möguleika þess að endurskoða og rýna í lög um nálgunarbannið í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar. Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð.

Herra forseti. Í fyrradag var hæstv. forsætisráðherra inntur eftir viðbrögðum sínum vegna lekamálsins, enda höfðu þing og þjóð beðið lengi eftir viðbrögðum frá hæstv. forsætisráðherra. Hver voru viðbrögð hans við þessum óskum nokkurra þingmanna? Þau að vísa í frumvarp sitt um Stjórnarráðið sem hann lagði svo fram á þingi í gær. Hvað kom fram í þessu ágæta frumvarpi? Að hæstv. forsætisráðherra ætlar sér að leggja niður sjö manna nefnd um siðferðileg viðmið fyrir ráðherra stjórnsýslunnar og hafa engar siðareglur fyrir ráðherra eða stjórnsýsluna. Já, gott fólk, viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við lekamálinu eru þau að hafa engar siðareglur fyrir ráðherra og leggja niður sjö manna óháða nefnd um siðferðileg viðmið fyrir ráðherra og stjórnsýsluna. Það eru hans viðbrögð.

Ég þarf varla að minna á það að í 8. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í kjölfar efnahagshrunsins er varað sterklega við ráðherraræði og því að ráðherrar taki sér of mikið vald. En hvað ætlar hæstv. forsætisráðherra að gera sjálfur þegar hann leggur niður þessa nefnd og hefur engar siðareglur fyrir ráðherra? Jú, hann ætlar að taka þetta upp á sína eigin arma, einn og óstuddur ætlar hann að vega og meta siðferði sinna eigin ráðherra í sinni eigin ríkisstjórn. Þetta eru viðbrögð hans við einu mesta hneykslismáli í íslenskri pólitík síðustu ára.

Ég held að okkur sé fyrir bestu að hann sjái sóma sinn í því að endurskoða þessa ákvörðun sína.