144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka stuðningsyfirlýsingu hv. þingmanns við þetta litla frumvarp og ber að þakka það.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að það er í raun bannað að auglýsa þá starfsemi sem hér um ræðir og ég ítreka það að ég kann ekki skil á því hvers vegna slíkt er. Það virðist vera sem svo í þessum geira þjónustunnar að þar gildi lögmálið leitið og þér munuð finna. Fólk ber sig eftir þeim upplýsingum sem það telur sig þurfa á að halda eftir ýmsum leiðum. Það kann vel að vera að fullt tilefni sé til þess að setjast yfir þennan þátt mála og gera aðgengilegri með einhverjum hætti en nú er þá þjónustu sem er í boði á sviði heilbrigðisþjónustunnar.

Það er rétt að auglýsingar eiga að vera til þess að miðla upplýsingum um vöru eða þjónustu, en það er líka tiltölulega létt verk að nýta þær til áróðurs og annarra þátta án þess að ég ætli heilbrigðisstarfsemi að vinna með slíkum hætti. En ég ítreka að það er full ástæða til að fara yfir þau sjónarmið og meta sem hv. þingmaður hefur sett hér fram.