145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hjó eftir þessu. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt. Mér finnst líka merkilegt af því við erum með breytingartillögu þar sem við gerum ráð fyrir 3 milljörðum aukalega á næsta ári að það hefur verið gagnrýnt af meiri hlutanum, þessir peningar liggi nú ekki á lausu, en svo í hinu orðinu er sagt að það séu 100 milljarðar þarna úti sem hægt sé að innheimta sem verið er að svíkja undan skatti á hverju ári. Þá segi ég, förum við bara í að innheimta þessa peninga, ekki stendur á mér í því.

Annað sem mér finnst skipta máli af því sem kom líka fram í umræðunni í dag er að öryrkjum er að fjölga og það er áhyggjuefni. Það segir eitthvað um okkur sem samfélag hversu margir fara á örorkubætur vegna geðheilbrigðisvandamála, það er eitthvað sem við erum ótrúlega sofandi gagnvart. Mér finnst við vera að skorast undan ábyrgð að taka á þessu vandamáli, hjálpa þessu fólki. Við getum ekki einu sinni, afsakið orðbragðið, drullast til að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Við erum að beina peningunum í rangar áttir held ég að mörgu leyti í heilbrigðiskerfinu og þetta er eitthvað sem velferðarnefnd hlýtur að verða að skoða, vegna þess að þetta er stórt vandamál. Það óskar sér enginn að enda á örorku vegna geðheilbrigðisvandamála. Ég er ekki að segja að það sé hægt að koma í veg fyrir þetta að öllu leyti, en við hljótum að gefa okkur það að með því að grípa snemma inn í, jafnvel bara strax hjá börnum og unglingum, veita góða þjónustu, þá getum við hjálpað fólki þannig að það geti a.m.k. sinnt einhverjum hlutastörfum eða náð svona þokkalega utan um sitt líf. Mér finnst þetta mikið áhyggjuefni. Þarna eru ungir karlmenn og konur. Þetta er ekki gott. Ég vænti þess eiginlega að velferðarnefnd sé að fjalla um þessi mál.