146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[16:02]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fram kemur í máli fjármála- og efnahagsráðherra á Facebook-síðu hans að stjórnvöld séu að vinna með bæjarfélögum við að auka framboð á húsnæði. Einnig kom fram að Garðabær er að skipuleggja 1.200–1.500 manna íbúabyggð og segir ráðherrann að það sé gott mál og hann vilji halda íbúðaverði niðri.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. félags- og jafnréttisráðherra að þrennu, en húsnæðismálin falla undir hann. Í fyrsta lagi: Má vænta þess að ríkisvaldið haldi áfram að auka framboð til sveitarfélaga á hagstæðu verði til að halda íbúðaverði niðri? Í öðru lagi: Ef svo er, með hvaða sveitarfélögum eru stjórnvöld að vinna? Er von á því að Reykjavíkurborg geti til að mynda keypt Keldnaholt á svipuðu verði og Vífilsstaðalandið ef áhugi er á því? Í þriðja lagi virðist salan á Vífilsstaðalandinu að mati fjármála- og efnahagsráðherra vera á hagstæðu verði; ráðherrann gerir ráð fyrir að ábatinn skili sér svo til þeirra sem kaupa fasteign á þessu svæði. Því spyr ég húsnæðismálaráðherrann hvort hann viti til þess að kvaðir hafi verið settar á sveitarfélagið til að þessi hagstæðu kaup skili sér til íbúa á svæðinu.