146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu. Hún er mikilvæg. Það er áríðandi að tekið sé á þessum vanda af festu.

Samfylkingin ásamt fulltrúum annarra stjórnarandstöðuflokka undir forystu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að fela hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögu að aðgerðum gegn kennaraskorti í framtíðinni. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni eru færð rök fyrir því hversu nauðsynlegt það er að fjölga brautskráðum kennurum og gera skóla að eftirsóttum vinnustöðum. Skortur á menntuðum kennurum er orðinn slíkur að um þriðjungur stöðugilda í leikskólum er skipaður leikskólakennurum og einungis um helmingur grunnskólakennara sinnir kennarastörfum. Fara verður ítarlega yfir starfskjör og vinnuumhverfi stéttarinnar til að tryggja að þeir sem mennti sig til kennslu kjósi að vinna innan skólanna og fleiri sækist eftir að verða kennarar.

Haustið 2016 voru 214 nýnemar skráðir við kennaradeildir opinberu háskólanna en þeir voru 440 árið 2009. Fækkunin nemur 51%. Þessar tölur, ásamt þeirri staðreynd að nú þegar er skortur á kennurum, sýna glöggt mikilvægi þess að Alþingi bregðist við með afgerandi hætti. Það er nauðsynlegt að skoða kjör kennara sérstaklega í þessu samhengi og meta hversu stór þáttur þau eru í vandanum. Með samræmingu lífeyrisréttinda almenna markaðarins og þess opinbera er það sjálfsögð krafa að laun kennara og annarra opinberra starfsmanna verði endurmetin, enda hafa lífeyrisréttindi vegið allnokkuð í kjörum þeirra. Þótt ekki væri nema af þeirri ástæðu er fyrirsjáanlegt að mánaðarlaun kennara muni hækka. Aðgerðir til að koma í veg fyrir kennaraskort þurfa að fá meiri athygli Alþingis og stærri sess í þjóðmálaumræðunni því að það er framtíð (Forseti hringir.) barnanna okkar sem er í húfi.