146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

rannsóknarsetur um utanríkis- og öryggismál.

305. mál
[19:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, þjóðaröryggisráðið er undir forsæti hæstv. forsætisráðherra.

Á þessum tveimur mínútum ætla ég að fara aðeins yfir það sem ég taldi að hv. þingmaður væri að inna mig eftir í seinna svarinu. Auðvitað er það þannig að við munum aldrei vera á þeim stað eins og ýmis önnur ríki, ég tala nú ekki um stórveldin, þegar kemur að upplýsingaöflun. Það sem mér hefur hins vegar fundist vanta og kom mér á óvart, bara svo ég nefni viðskiptamálin, er hvað við erum með lélegar upplýsingar. Ég get nefnt dæmi um það að ef við skoðum t.d. okkar helstu útflutningslönd þá stendur Holland þar upp úr. Við erum ekkert að flytja mest til Hollands. Það er uppskipun í Rotterdam og við vitum ekki hvert það fer. Þegar við erum að gæta hagsmuna okkar og gerum áætlanir þá er óþolandi að hafa ekki slíkar upplýsingar. Lengi hefur verið vitað að við vissum þetta ekki, en það hefur ekki verið gert neitt í því. Þetta er eitt af því sem ég hef verið að taka á frá því ég tók við í mínu ráðuneyti af því að mér finnst fullkomlega óásættanlegt að hafa ekki réttar upplýsingar í þessum mikilvægu málum.

Ýmislegt fleira gæti ég nefnt sem ég mun reyna að upplýsa þing og þjóð um þegar það er tilbúið því að mér hefur fundist umræðan oft ekki taka mið af réttum upplýsingum. Meira að segja þegar ég kem sem ráðherra og kalla eftir upplýsingum hef ég ekki getað fengið þær vegna þess að þær eru ekki til staðar. En hins vegar er líka til mikil þekking sem mér finnst spurning um hvernig við komum í farveg þannig að þing og almenningur, fjölmiðlar og aðrir geti haft aðgang að og huga þarf að því. Þetta snýr ekki alltaf að því að búa til nýjar stofnanir eða neitt slíkt, í þessu tilfelli snýst það um skipulag utanríkisþjónustunnar að stórum hluta. Ef við ætlum hins vegar að fara í mjög mikla vinnu í viðbót þá mun það auðvitað kalla á aukna fjármuni.

Þetta er grundvallaratriðið. Ef við ætlum að taka (Forseti hringir.) ákvarðanir, hvort sem er í þessum mikilvægu málum eða öðrum, þá verður að byggja það á réttum upplýsingum. Þar er (Forseti hringir.) verk að vinna, virðulegi forseti.