148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

sektareglugerð vegna umferðarlagabrota.

560. mál
[17:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hefja máls á þessu og tek undir með honum að sektir eru alls ekki eina leiðin og ekki endilega sú þýðingarmesta í að fækka umferðarslysum. Það er spurt um helstu breytingar á gildandi rétti og ég get sagt að til að mynda hafa sektir á notkun farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar ekki tekið breytingum frá árinu 2006. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur m.a. bent á að farsímanotkun er meðal helstu orsakavalda alvarlegra umferðarslysa. Þá hafa komið upp alvarleg tilvik þar sem atvinnubílstjórar í þungaflutningum hafa gerst uppvísir að notkun slíkra tækja við akstur á þjóðvegum landsins.

Upphafið að þessum breytingum má rekja til bréfs þáverandi innanríkisráðherra frá 7. september 2016 sem óskaði eftir því við ríkissaksóknara að skoðaðar yrðu breytingar á reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum. Samkvæmt umferðarlögum er það ríkissaksóknara að gera tillögu til ráðherra um fjárhæð sekta vegna brota á umferðarlögum.

Með bréfi frá 9. júní 2017 lagði ríkissaksóknari til við þáverandi samgönguráðherra að sett yrði ný reglugerð þar sem sektir vegna umferðarlagabrota yrðu hækkaðar almennt í samræmi við verðlagsbreytingar frá því að fjárhæð fyrir einstök brot var ákvörðuð með þeirri undantekningu að sekt vegna brots gegn 47. gr. a umferðarlaga, um notkun farsíma án handfrjáls búnaðar, myndi hækka verulega umfram verðlagsþróun og yrði 40.000 kr. Var sú tillaga sett fram vegna aukinnar tíðni slíkra brota og vegna þeirrar hættu sem er samfara notkun farsíma við akstur. Ríkissaksóknari lagði einnig til að lægsta sektarfjárhæð yrði ákvörðuð 20.000 kr. með þeirri einu undantekningu að sekt fyrir að hafa ökuskírteini ekki meðferðis yrði 10.000 kr. Ég get tekið undir hugleiðingar hv. þingmanns um að á rafrænni öld sé spurning hvort það eigi að vera forsenda, en auðvitað er það einföldun í eftirliti.

Ríkissaksóknari lagði einnig til að hámark sektarfjárhæða, þar með talið að teknu tilliti til samtölu sektarfjárhæðar vegna margra umferðarlagabrota, geti numið allt að 500.000 kr. í stað 300.000 kr. eins og verið hefur. Það er gert ráð fyrir að sú tillaga verði hluti af frumvarpi til nýrra umferðarlaga sem verður lagt fram á haustþingi.

Í nýrri reglugerð er heimild til að sekta þegar hjólað er gegn rauðu umferðarljósi, ökutæki er ekið eftir að hafa fengið niðurstöðuna notkun bönnuð og öryggisbelti ekki notuð á bifhjóli. Þá eru einnig gerðar orðalagsbreytingar á nokkrum greinum í reglugerðinni í því skyni að fella undir þær þau tilvik þar sem ökumaður hefur ekki endurtekið ökupróf eða er í akstursbanni og er þar af leiðandi ekki með gilt ökuskírteini.

Með nýrri reglugerð er jafnframt felldur úr gildi viðauki III, skrá um sektir vegna brota á reglugerð um flutning á hættulegum farmi, frá 2010. Endurskoðun á þeim viðauka stendur yfir í samgönguráðuneytinu, en þar til þeirri vinnu er lokið munu sektir fyrir umrædd brot verða ákvarðaðar í samræmi við það sem segir í 1. gr. nýrrar reglugerðar, þ.e. að brotin varði sektum frá 20.000 í allt að 30.000 kr. eftir eðli og umfangi brots.

Ný reglugerð var sett á vef ráðuneytisins til umsagnar en áður hafði ríkissaksóknari óskað eftir umsögnum frá ríkislögreglustjóra og lögreglustjórum. Alls bárust átta umsagnir og voru þær flestar jákvæðar. Nýja reglugerðin var undirrituð 28. febrúar 2018 og send til birtingar. Hún tók gildi í gær.

Rökin á bak við það að hún hafi verið sett er að umferðaröryggi á að vera forgangsmál. Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru allt of mörg. Við þurfum að spyrna við fæti. Aukinn umferðarhraði er áhyggjuefni og hækkun sekta við brotum er liður í því að fyrirbyggja umferðarslys. Við eigum að vera meðal bestu þjóða hvað það varðar að fækka fjölda látinna í umferð. Eftirlit og sektir ef við brjótum af okkur veita aðhald sem er til þess fallið að gera okkur að betri vegfarendum. Það er kjarni málsins þegar umferðaröryggi er annars vegar.

Með vísan til umferðaröryggis er rétt að sektir og önnur viðurlög taki mið af alvarleika þeirra brota sem refsað er fyrir og þeirri hættu sem þau skapa. Sektir hafa tekið litlum sem engum breytingum í rúman áratug en með nýrri reglugerð eru þær hækkaðar í samræmi við verðlagsþróun. Það er fyrst og fremst með hliðsjón af umferðaröryggi sem sektir eru hækkaðar, enda hafa lágar sektir takmarkaðan fælingarmátt. Hærri sektir eru aftur á móti til þess fallnar að veita ökumönnum aukið aðhald og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi.

Vegna spurningarinnar um eftirfylgni reglugerðar og úrvinnsla sektanna hefur Samgöngustofa að undanförnu kynnt efni nýrrar reglugerðar fyrir almenningi, auk þess sem efni hennar hefur verið til umfjöllunar í flestum fjölmiðlum. Við erum líka að taka þessa umræðu hér. Allt hjálpar það til við að kynna breytinguna. Það er ekki gert ráð fyrir að innheimta sekta vegna umferðarlagabrota breytist í kjölfarið á hækkun sekta. Úrvinnsla sekta verður því með óbreyttu sniði.

Í lokaorðum mínum ætla ég síðan að koma að tveim, þrem öðrum spurningum hv. þingmanns.