150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

skerðingarflokkar lífeyris.

[10:48]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Stefna þessarar ríkisstjórnar er skýr gagnvart örorkulífeyrisþegum, þ.e. að draga úr skerðingum. Það gerðum við hér, líkt og þingmaðurinn kom inn á í fyrirspurn sinni, og stefnan er að halda því áfram. Þingmaðurinn talar um að þetta sé leikur að tölum en hv. þingmaður fer líka, þegar hann dregur þær ályktanir að það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar að draga úr skerðingum, með þennan talnaleik til að rökstyðja sitt mál. Stefnan er algjörlega skýr, þ.e. að draga úr skerðingum innan kerfisins og hvetja til aukinnar þátttöku á atvinnumarkaði. Það er líka dálítið stórt að taka upp í sig, vil ég segja, þegar þingmaðurinn segir að það að hafa dregið úr skerðingunni hér hafi bara ekkert skilað sér þegar það hefur áhrif annars staðar í kerfinu. Kerfið er mjög flókið og það er dálítið stórt að taka upp í sig að segja að þetta hafi engu skilað og hafi ekki skilað sér til eins eða neins, eins og þingmaðurinn gerði í sínu máli. Það að draga úr krónu á móti krónu skerðingum eins og gert var hefur skilað sér og mun skila sér til þeirra sem það geta nýtt.

Ég hef hins vegar áhyggjur af þeim hópi í kerfinu sem getur ekki sótt neina vinnu. Skerðingarnar hafa engin áhrif þar. Það hjálpar ekki þeim hópi sem eingöngu lifir af framfærslu og getur ekki sótt sér vinnu, m.a. vegna örorku eða fötlunar, að draga úr skerðingum. Við höfum verið að skoða þann hóp sérstaklega, t.d. aldraða, þar sem við erum að undirbúa sérstakan félagslegan viðbótarstuðning vegna skýrslu sem skilað var hér á síðasta ári. Þar erum við einmitt að tala um hóp sem hefur ekki tækifæri til að sækja sér aðrar tekjur í kerfinu og minni skerðingar nýtast honum ekki. En stefnan er algjörlega skýr, þ.e. að draga úr skerðingum. Við megum þó ekki gera það með þeim hætti að við gleymum að tala um þá hópa sem ekki hafa möguleika á því að sækja sér aðrar tekjur og það gleymist stundum í þessari umræðu.