150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Norrænt samstarf 2019.

557. mál
[12:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma örstutt upp undir lok umræðunnar og óska Íslandsdeild Norðurlandaráðs til hamingju með formennskuna og hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur til hamingju með að vera forseti Norðurlandaráðs sem og hv. þingmanni, framsögumanni skýrslunnar í dag, Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir einmitt að vera varaforseti þess. Ég þakka fyrir samstarfið við Norðurlandadeildina á síðasta ári, á formennskuári Íslands í norrænu ráðherranefndinni, og lýsi yfir vilja til stuðnings og að koma til samstarfs við íslensku Norðurlandaráðsdeildina vegna þessa mikilvæga verkefni sem er mikið, að standa fyrir Norðurlandaráðsþingi í ár og vera í formennsku á þessum vettvangi. Af því að hér verður líka rætt um skýrslu Vestnorræna ráðsins á eftir þakka ég jafnframt fyrir samstarfið við þau sem þar sitja og forseta þess, hv. þm. Guðjón S. Brjánsson.

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á mikilvægi tungumála sem er einmitt eitt af því sem menn hafa lagt áherslu á af hálfu Norðurlandaráðs við norrænu ráðherranefndina. Ég tek undir með hv. þingmanni.

Nú búa um 30.000 Íslendingar á Norðurlöndunum, mjög margir eru þar í námi eða tímabundnu starfi. Þá er auðvitað mikilvægt að þessi þekking okkar á norrænum tungumálum sé til staðar. Við vitum ekki þegar við erum sjö, átta, níu, tíu ára, 12, 15 eða jafnvel 18 ára hvar við lendum nokkrum árum síðar. Stundum er það gáfulegasta sem við gerum í lífinu að heimsækja Norðurlöndin og dvelja þar um skamma hríð, hvort sem er við nám eða störf. Þá er verulegur kostur að hafa skilning á þessu fyrir utan það að í því samstarfi sem við erum í, þó að við ætlumst til að íslenskan okkar standi jafnfætis öðrum tungumálum, að við séum jafn gjaldgeng, hjálpar vissulega til að hafa einhverja grunnþekkingu í norrænum málum.

Að lokum vil ég segja að það skiptir máli hvernig Norðurlandaráð tókst á við það að koma þessari framtíðarsýn norræns samstarfs næstu tíu árin á laggirnar. Þær hugmyndir, þær tillögur og sá stuðningur sem kom frá Norðurlandaráði, ekki síst núna þegar við erum að koma þessu í gang og innleiða starfið, voru þær hugmyndir sem komu frá Norðurlandaráði og fundi núverandi formennskuríkis, Danmerkur, með forsætisnefnd Norðurlandaráðs allra góðra gjalda verðar. Við studdum þá sýn sem þar hefur verið sem undirstrikar að það er mikilvægt að við eigum samstarf, annars vegar framkvæmdarvaldið, norræna ráðherranefndin, og hins vegar þingmannahópurinn. Ég vildi bara undirstrika það með stuttri tölu.