150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Vestnorræna ráðið 2019.

534. mál
[14:08]
Horfa

Frsm. ÍVN (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara örstutt í lokin taka til máls og þakka alla þá góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað um starf Vestnorræna ráðsins á árinu 2019. Menn takast svolítið á um það, a.m.k. annað veifið, í hve miklum mæli við eigum að verja fjármunum og tíma í að ferðast til annarra landa og kynnast háttum annarra þjóða. Samstarf Vestnorræna ráðsins er, eins og ég kom inn á í skýrslu minni, meðal þess elsta sem gerist meðal þingmanna á norðurslóðum. Við eigum að halda í það og efla. Þetta er mikilvægt fyrir okkur. Við erum auðvitað stóri bróðirinn í þessum leik. Grænlendingar og Færeyingar, frændþjóðir okkar, eru í mjög sérstakri stöðu í þessu samstarfi því að þetta er kannski eini vettvangurinn þar sem þeir fá að njóta sín í alþjóðasamstarfi og vera á eigin forsendum án þess að andað sé ofan í hálsmálið á þeim. Þeim finnst það mikils virði, maður skynjar það. Þeir horfa til Íslands sem forystuafls og stuðningsaðila í baráttu sinni fyrir auknu sjálfstæði. Þeir gera það. En það er flókið mál, sjálfstæðisbarátta þeirra, og ekki tækifæri til að fara í það hér, en þeir leita dálítið mikið í smiðju okkar og við verðum að standa undir því trausti sem þeir sýna okkur í þessum efnum að mínu áliti.

Ég hef raunar ekki starfað í mörg misseri á þessum vettvangi en það þarf ekki mikinn speking eða mjög næman samfélagsrýni til að átta sig á þeim breytingum sem eru að eiga sér stað og viðhorfum gagnvart norðurslóðum og á þessu svæði og átta sig á þeim þunga sem er í umræðunni, viðhorfi stórveldanna til þessa svæðis. Þetta er allt í gerjun og mikil mótun á sér stað. Ég trúi því að þjóðir á svæðinu muni gæta þess að farið sé varlega, en við þurfum að vera á varðbergi.

Verkefni Vestnorræna ráðsins hafa verið af ýmsum toga í gegnum tíðina eins og ég kom inn á í minni ræðu. Við höfum lagt áherslu á málefni tungunnar, þessara þriggja litlu tungumála, á síðasta ári. Hvað við gerum næst er ekki enn þá búið að ákveða. En umræðan í Vestnorræna ráðinu hefur snúist dálítið mikið um þessi atriði, umhverfismálin, öryggismálin og málefni hafsins, lífið í hafinu. Það eru fjölmargir uggandi yfir þeirri miklu og vaxandi umferð sem á sér stað á hafsvæðunum í kringum okkur.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra en leyfi mér auðvitað að þakka okkar góða aðstoðarfólki, við værum ekki vel sett án þess. Það hnýtir lausa enda saman og heldur okkur við efnið því að þingmenn mæðast í mörgu á hverjum degi og það þarf talsvert til að halda okkur við efnið. Framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins hnýtir þetta saman og eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom að þá er skýrslugerð og samantektir í höndum okkar góðu nefndarritara. Þessum aðilum þakka ég mikið og vel fyrir sín góðu störf. Ég þakka sömuleiðis aldeilis ljómandi gott samstarf með fulltrúum Íslandsdeildar í Vestnorræna ráðinu.