150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Norðurskautsmál 2019.

551. mál
[14:13]
Horfa

Frsm. ÍNSM (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Frú forseti. Við höfum rætt um skýrslur um norðurslóðasamstarfið og víkkum núna sviðið dálítið, förum yfir á norðurskautssvæðið eins og það oft kallast. Ég flyt hér eða reifa öllu heldur skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2019. Ég ætla að byrja á því að fara örfáum orðum um þessa þingmannaráðstefnu. Það eru kannski ekki margir sem kannast við hana en þetta er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskautið eða á norðurslóðum sem og fulltrúa ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig þessi málefni varða. Fyrsta ráðstefnan var haldin í Reykjavík 1993, þetta er svona gamalt, og svo var formlega sett á laggirnar þessi þingmannanefnd um norðurskautsmál. Þetta er skammstafað SCPAR og heitir á ensku Conference of Parliamentarians of the Arctic Region, með leyfi frú formanns. Þetta var sem sagt sett formlega á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á milli þess sem ráðstefnan er haldin á tveggja ára fresti þá hittast formenn undirnefnda sem mynda í raun og veru allt starfið og taka þátt í þessari ráðstefnu á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni þessara þjóðlegu nefnda er að skipuleggja þingmannaráðstefnuna og fylgja eftir samþykktum hennar, sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins, sem er aftur framkvæmdarvaldið, eins og menn vita.

Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári, hvort sem það er ráðstefnuár eða ekki ráðstefnuár, og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í þessari nefnd; frá Íslandi er það formaður Íslandsdeildarinnar. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni. Auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök þingmanna, frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúi í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.

Þetta var aðeins almennt um þessa þingmannanefnd og -ráðstefnu sem um ræðir. Íslandsdeildina eða íslensku nefndina skipuðu árið 2019 sá sem hér stendur, Ari Trausti Guðmundsson formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson. Varamenn voru Halla Signý Kristjánsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Smári McCarthy. Íslandsdeildarritarinn hefur verið Arna Gerður Bang og er mikið lím í starfsemi þessarar nefndar og hefur verið í mörg ár og staðið sig með mikilli prýði. Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar fundi þingmannanefndarinnar eins og kom fram áðan, það er þessi eini þingmaður, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir svo ráðstefnu nefndarinnar, svo ég endurtaki það, sem er haldin á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins og það eru umræður o.s.frv. Íslandsdeildin hélt þrjá fundi á árinu 2019.

Þá almennt um árið 2019. Á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál bar á árinu hæst umræður um loftslagsmál, formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu, niðurstöður síðasta ráðherrafundar ráðsins og hvernig stuðla megi að áframhaldandi stöðugleika á svæðinu.

Nefndin lagði að venju ríka áherslu á umhverfismál og horfði sérstaklega til loftslagsbreytinga. Loftslagsbreytingar eru stærsta váin á norðurslóðum og var fulltrúum þingmannanefndarinnar tíðrætt um hvernig draga mætti úr neikvæðum afleiðingum þeirra en ekki aðeins það heldur líka hvernig mætti koma í veg fyrir áframhaldandi hlýnun. Ræddu þátttakendur yfirleitt saman, m.a. um hvernig draga mætti úr hækkun hitastigs af völdum loftslagsbreytinganna en þær eru tvöfalt hraðari á svæðinu en annars staðar í heiminum.

Jafnframt var formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu í brennidepli en Ísland tók við formennsku til tveggja ára af Finnum í maí 2019. Áætlun Íslands ber yfirskriftina Saman til sjálfbærni á norðurslóðum sem vísar til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjast samvinnu yfir landamæri og er áminning um að starf ráðsins hefur frá upphafi snúist um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu. Í áætluninni, svo ég leggi það nú fram, eru þrjár megináherslur: Málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir, og fólkið og samfélög á norðurslóðum.

Í starfinu 2019 lögðu fulltrúar Íslandsdeildarinnar m.a. áherslu á stafrænt norðurskautssvæði og mikilvægi þess að styðja við máltækni og þróun hennar á norðurslóðum. Þannig gætu íbúar norðurskautssvæðisins verið virkir þátttakendur í hinum stafræna heimi. Þá var sjónum beint að nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika, þ.e. lágmarka spennu og halda friðsamlegu andrúmslofti á þessu svæði.

Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi hjá þingmannanefndinni má nefna olíumengun á hafsvæði norðurslóða, menntamál, líffræðilega fjölbreytni og versnandi samskipti milli Rússlands og Bandaríkjanna. Að auki fóru fram umræður um stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins og jafnréttismál á svæðinu.

Norðurslóðir verða æ mikilvægari, bæði í heimspólitíkinni, frú forseti, og eins þegar kemur að loftslagsmálunum, og við þurfum að sjálfsögðu að sinna þeim vel og ötullega eftir bestu getu.

Ég ætla aðeins að fjölyrða um einstaka fundi á þessu ári 2019 án þess að fara mjög djúpt í það. Fyrsti fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2019 var í mars í Múrmansk í Rússlandi og þar kom margt fram, margt rætt, en það sem vakti athygli og má kalla sérstaka athygli var að Nikolay Korchunov, sendiherra Rússlands gagnvart norðurskautinu, ræddi um norðurslóðastefnu Rússlands á þessum fundi og gagnrýndi þar varnarstefnu Bretlands á norðurslóðum og það sem hann nefndi hernaðaruppbyggingu undir hatti NATO. Ég nefni þetta hér vegna þess að það hefur verið samkomulag milli hvort sem er þátttakenda í þingmannaráðstefnunni eða nefnd á hennar vegum og eins í Norðurskautsráðinu að halda varnar- og öryggismálum utan við umræður eða við skulum segja ræðuhöld á þeirra vegum. Hann var reyndar spurður um loftslagsbreytingar og það vakti nokkra athygli, fróðlegt að vita, að hann benti á það að fljótandi náttúrugas væri helsta áhersluatriði Rússlands í andófinu gegn loftslagsbreytingum. Það stafar af því að losun frá fljótandi náttúrugasi af kolefnisgösum er mun minni en af venjulegri olíu eða venjulegu gasi og kolum. Þeir sjá í þessu ákveðið tækifæri til að leggja eitthvað af mörkum því eins og allir vita er Rússland risastórt, framleiðir gríðarlegt magn af kolefniseldsneyti og notkunin þar er mjög mikil, t.d. í orkuframleiðslu og hitun vatns. En ég ætla ekki að fjölyrða um þennan fund frekar.

Ég vil segja örfá orð um fund þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ottawa sem var í maí. Þar kynntum við í nefndinni sérstaklega þann atburð að Ísland tók formlega við formennskukeflinu af Finnum á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi, þarna rétt á undan, maí 2019. Gerð var grein fyrir áhersluatriðum Íslands og þá ræddi formaðurinn sérstaklega nauðsyn þess að bandarískir þingmenn og fulltrúar Evrópuþingsins sæktu alla fundi þingmannanefndarinnar en það hefur ekki verið raunin. Það þyrfti að finna leiðir til að tryggja að þessir aðilar hefðu sína fulltrúa á öllum fundum og það var tekið vel undir það og menn vildu kanna leiðir til þess.

Mig langar að nota tækifærið hér til að minna á þátt Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðsins í þessum fundum. Þar flutti m.a. Kári Páll Højgaard, varaformaður Vestnorræna ráðsins frá Færeyjum, sitt mál og lagði til að lögð yrði áhersla á vernd og vöxt tungumála í vestnorrænu ríkjunum. Þetta er dæmi um það hvernig þessir fulltrúar leggja sitt til málanna. Oddný G. Harðardóttir, sem var fulltrúi Norðurlandaráðs á þessum fundi, ræddi m.a. um áherslu á bann við notkun svartolíu sem gæti auðvitað haft áframhaldandi alvarlegar afleiðingar fyrir lífríki og loftslag hnattrænt í sjálfu sér, bæði vegna sótmengunar og vegna mikillar losunar kolefnisgasa.

Næst til fundar þingmannanefndar um norðurskautsmál í Bodø í nóvember. Þar var rætt um öryggismál á norðurslóðum en þó ekki efnislega eins og venjulega heldur aðeins hversu mikilvægt væri að halda þeim utan við starfsemi þingmannanefndarinnar og þingmannaráðstefnunnar til að viðhalda friðsæld á svæðinu og góðum anda í samvinnu en um leið, og það var okkar framlag í íslensku nefndinni, væri mikilvægt að finna umræðuvettvang fyrir þá umræðu, um varnar- og öryggismál á norðurslóðum, utan við Norðurskautsráðið, utan við þingmannaráðstefnuna, og finna fyrirkomulag sem fulltrúar stórveldanna gætu sætt sig við. Okkar áhersla á þessum fundi í Bodø var þríþætt. Í fyrsta lagi á stafræna þróun á Norðurlöndum, þ.e. góðu sambandi milli byggðra bóla á þessu svæði. Í öðru lagi rannsókn á sífrera. Hann er til staðar í gríðarlegu magni á þessum slóðum og losar bæði metan og koltvíoxíð þegar hann þiðnar. Það þyrfti að efla rannsóknir á því svæði. Í þriðja lagi að leggja áherslu á svokallað fræðsluverkefni frumbyggja á norðurslóðum, eins konar frumbyggjaskóla, jafnvel færanlegan, þar sem frumbyggjar kynna okkur hinum, bæði íbúum norðurskautssvæðanna og öðrum í veröldinni, sína sýn á náttúrunytjar og náttúruvernd. Þeir hafa, skulum við segja, tiltekna siðfræði sem er sameiginleg frumbyggjum að mestu leyti á þessu svæði og það er mjög áhugavert og hollt fyrir okkur hin að hlusta á þá. Þess vegna höfum við lagt áherslu á skipulagningu svona fræðsluverkefnis frumbyggja á norðurslóðum.

Samhliða þessum fundi var þingmannaráðstefna hinnar norðlægu víddar í Bodø. Norðlæga víddin er samstarfsvettvangur Evrópusambandsins, Íslands, Noregs og Rússlands um þróun mála í norðanverðri Evrópu og var settur á fót árið 1999 og hefur verið nokkuð lífleg starfsemi. Þar sóttum við ráðstefnuna sá sem hér stendur, Ari Trausti Guðmundsson, formaðurinn, og Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem er formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og nú formaður Norðurlandaráðs, Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og nú formaður, og svo Arna Gerður Bang að venju. Meginþemu þessarar ráðstefnu voru alþjóðlegt samstarf í samgöngumálum og öryggi á sjó á norðurslóðum, samstarf í umhverfismálum innan hinnar norðlægu víddar og sjálfbær ferðaþjónusta og menningarlegt frumkvöðlastarf. Jafnframt fór fram umræða um bætta heilsu og samfélagslega velferð á svæði norðlægu víddarinnar og framtíðarsýn og þróun stefnu þessa samstarfsvettvangs sem er hin norðlæga vídd.

Formaður íslensku sendinefndarinnar tók þátt í að búa til ráðstefnuyfirlýsinguna og hann lagði áherslu á aukið átak varðandi kolefnisjöfnun með skógrækt og verndun jarðvegs og benti á nauðsyn þess að styrkja samstarf varðandi stafræn samskipti og upplýsingamiðlun innan norðlægu víddarinnar. Það er rétt að nefna að á fundinum kom fram, mjög ánægjulega, skýr tenging loftslagsmála við starfsemi fyrirtækja á norðurslóðum og það var tekið undir töluleg markmið Parísarsamkomulagsins af hálfu Rússa sem verður að teljast nokkuð merkilegur atburður. Það er rétt að taka það fram að svona yfirlýsingar eru samþykktar einróma.

Að lokum ætla ég að fara örfáum orðum um aukafund þingmannanefndarinnar í New York og Washington í desember. Þar vorum við þrír á ferð, sá sem hér stendur, formaður íslensku deildarinnar, Eirik Sivertsen, sem er formaður þingmannaráðstefnunnar, og finnski þingmaðurinn Miko Kärnä, sem er formaður finnsku nefndarinnar. Tilgangur fundanna var að efla tengsl þingmannanefndarinnar við stofnanir Sameinuðu þjóðanna, bandaríska þingið og opinberar stofnanir. Fundirnir voru skipulagðir í samvinnu við sendiráð og fastanefndir Íslands, Finnlands og Noregs gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Í New York hittu þremenningarnir fulltrúa Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Þróunarsamvinnustofnunar Sameinuðu þjóðanna, fulltrúa rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og áttu svo enn fremur fund með stofnun sem heitir DOALAS, sem er lagaskrifstofa varðandi málefni hafsins og hafréttarmál. Þetta voru margir og miklir fundir og mjög árangursríkir. Enn fremur, þegar til Washington var komið, hittu norrænu þingmennirnir nokkra bandaríska þingmenn og ræddu um mikilvægi þess að tryggja þátttöku bandarískra þingmanna í viðburðum þingmannanefndarinnar. Þá væri ákjósanlegast að föst alþjóðanefnd væri til um norðurslóðamál í bandaríska þinginu. Það var tekið vel í að bregðast við boðum frá þingmannanefndinni á fundi en menn töldu erfiðara eða jafnvel óframkvæmanlegt að hafa einhvers konar alþjóðanefnd um málefni norðurslóða í bandaríska þinginu. Lögð var áhersla á að unnið væri að því að virkja þingmenn í tilteknum málaflokkum og bjóða þeim á alla fundi. Það þarf að taka það fram hér að potturinn og pannan í norðurskautsmálum Bandaríkjamanna hefur verið öldungardeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski og við hittum hana í þessari ferð einnig.

Að lokum voru fundir í þessari ferð í svokallaðri Wilson Center Polar Institute sem er einkastofnun, má kalla. Þar kristölluðust kannski ákveðin verkefni sem er vert að nefna hér og menn skyldu hafa í huga næstu misseri. Það var umræðuvettvangur fyrir varnar- og öryggismál á norðurslóðum í breiðum skilningi utan Norðurskautsráðsins og utan þingmannanefndarinnar. Þetta gæti verið ráðstefna þar sem fræðimenn frá mörgum löndum kynna niðurstöður sínar og túlkanir fyrir ráðherrum eða fulltrúum ríkisstjórna, stjórnmálamönnum og öðrum fræðimönnum. Slíka ráðstefnu mætti endurtaka og jafnvel flytja úr stað með breyttu sniði með ákveðnu millibili, sem sagt ráðstefnu til að ræða varnar- og öryggismál á norðurslóðum. Í öðru lagi að kanna hvort það væri hægt að koma á fót nýju alþjóðlegu ári heimskautasvæðanna, þ.e. rannsóknarári heimskautasvæðanna, í gegnum t.d. Alþjóðavísindanefnd norðurslóða, IASC, eða „jask“, eins og við segjum gjarnan, með tilstilli annarra vísindanefnda og stofnana. Og svo í þriðja lagi nauðsyn þess að setja fram áætlun um vísindarannsóknir vegna mögulegra fiskveiða í hánorðri. Þetta er upptalning sem ég held að þurfi að vera í umræðunni áfram sem verkefni.

Það er alveg ljóst að norðurslóðir eru orðnar og eiga að vera og verða æ mikilvægari í alþjóðlegri umræðu og andófinu gegn loftslagsbreytingum og aðlögun að loftslagsbreytingum. Það má taka það fram hér og nú að það er hafin endurskoðun á norðurslóðastefnu Íslands, hinni heildrænu stefnu, sem síðast var afgreidd sem þingsályktun með langri greinargerð árið 2011. Það er þverpólitísk nefnd sem að henni stendur.

Undir þessa skýrslu, sem er dagsett 3. febrúar 2020 og ég hef farið lauslega yfir, skrifar Ari Trausti Guðmundsson formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir varaformaður og Björn Leví Gunnarsson. Skýrslan er lögð fram prentuð hér á Alþingi en er að sjálfsögðu aðgengileg á vefsíðu þingsins. Með því, frú forseti, hef ég lokið máli mínu.