150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

NATO-þingið 2019.

556. mál
[16:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ítarlega og góða ræðu og yfirferð yfir þessa góðu skýrslu. Mig langaði bara að koma hér upp og fagna sérstaklega áherslum sem hafa verið á netöryggismál. Það er málaflokkur sem ég hef haft miklar áhyggjur af frá því að ég kom inn á þing. Við þyrftum að horfa til þeirra sem við vinnum með eins og innan NATO og innan Norðurlandanna, hvernig við getum bætt okkur í þeim efnum. En fyrst og síðast langaði mig þó að lýsa ánægju minni með áhersluna á norðurslóðamál á vettvangi NATO. Eins og ég kom inn á í ræðu undir annarri alþjóðaskýrslu tel ég þau vera eitt af okkar brýnustu málum í alþjóðastjórnmálum og mikilvægt að rödd Íslands heyrist hátt og skýrt í þeim efnum. Eins og er auðvitað í núgildandi norðurslóðastefnu okkar þá er mikilvægt að það haldist öryggi á svæðinu, mig minnir á að hv. þingmaður hafi notað orðin lágspenna og ég hugsa að það sé bara ágætisþýðing á því, og við komumst hjá því að þar verði mikil hernaðarumsvif. En það er engu að síður staðan. Við horfum á mjög aukna uppbyggingu hernaðarmannvirkja á norðurskautinu. Það er það sem norðurslóðaríkin almennt vilja berjast gegn og við höfum í okkar stefnu. Mig langaði bara að þakka fyrir þetta og ég mun án efa eiga frekari samtöl við þá sem sitja í NATO-nefndinni fyrir okkar hönd. Mér hefur verið falið að stýra þverpólitískri nefnd sem er að vinna að endurskoðun á norðurslóðastefnu okkar og ég hygg að það sé stórt og mikið mál því að við getum haft ofboðslega fallega og mikilvæga sýn um frið á þessum slóðum og um öryggi. Þegar ég ræði öryggi þá er ég bæði að velta fyrir mér hefðbundnu heröryggi, það komi ekki til stríðs eða hernaðarátaka, en síðast en ekki síst umhverfisöryggi. Það sem er að gerast á norðurslóðum er svo gígantískt, hefur svo mikil áhrif á okkur hér og það er auðvitað risastórt umhverfismál en líka risastórt öryggismál.

Mig langaði líka að þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á það, og mér finnst það vel til fundið, að hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir hafi fundað sérstaklega með konum innan NATO-þingsins, tel það mikilvægt. Ég hef sjálf tekið eftir því. Ég hef alla vega setið einn fund þar sem saman var komið fólk úr varnarmálanefndum Evrópusambandsins, við vorum þar áheyrnaraðilar, þar sem var áberandi að engin kona var í pallborði og nánast engar konur náðu að taka til máls fyrr en við náðum einmitt að benda á þennan punkt. Það er auðvitað algerlega óásættanlegt að árið 2020 eða árið 2019, eins og í fyrra, sé þessi umræða „dómineruð“ eingöngu af karlmönnum enda mikilvægt að bæði kynin komi að þessari umræðu.

Í ljósi þeirra umræðna sem voru í andsvörum áðan þá langar mig líka að lýsa miklum áhyggjum af hernaðarbrölti Tyrkja, þ.e. þeirri miklu viðkvæmni sem virðist vera innan NATO með það. Auðvitað átta ég mig á því að þarna er um gríðarlega flókna stöðu að ræða en það er engan veginn hægt að horfa fram hjá því sem Tyrkir hafa verið að gera og það að Tyrkir séu NATO-þjóð og hegði sér með þessum hætti krefst þess að um það sé rætt með ábyrgum hætti.