151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

rekstur hjúkrunarheimila.

[13:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur nú samþykkt fern fjárlög þar sem rekstur hjúkrunarheimila hefur í öll skipti verið vanfjármagnaður. Sveitarfélög hafa lengi lýst áhyggjum af þeirri stöðu og Samfylkingin ítrekað lagt fram tillögur til bóta sem hafa allar verið felldar. Ríkinu ber þó að standa undir kostnaði af starfsemi hjúkrunarheimila en um þriðjungur hjúkrunarheimila landsins er rekinn af sveitarfélögum með samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Afleiðingin af þessari skortstefnu ríkisstjórnar síðustu ára er að sveitarfélög hafa þurft að greiða milljarða á milljarða ofan til að tryggja öldruðum mannsæmandi þjónustu í heimabyggð, sem ríkið ber þó ábyrgð á. Akureyrarbær hefur t.d. borgað hátt í 2 milljarða með hjúkrunarheimilum bæjarins síðustu átta ár. Þá hafa fjögur sveitarfélög, Akureyrarbær, Vestmannaeyjabær, Höfn og Fjarðabyggð, neyðst til að segja upp samningum. Fleiri sveitarfélög íhuga nú stöðu sína enda glíma hjúkrunarheimili þessara byggðarlaga við alvarlegan rekstrarvanda.

Herra forseti. Hér erum við að ræða um heimili gamals fólks sem enginn veit enn hvernig á að tryggja rekstur á frá 1. maí næstkomandi, a.m.k. á Akureyri. Ekki verður betur séð en að Sjúkratryggingar Íslands reyni að neyða sveitarfélögin fjögur sem hafa sagt upp samningum til að halda rekstri áfram án nægilegs fjármagns. Ráða- og viðbragðaleysi stofnunarinnar í þessu máli virðist ömurlegt, herra forseti.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort henni þyki þessi vinnubrögð ásættanleg og hvort og þá hvernig hún hyggist stíga inn í málið svo hægt sé að tryggja öldruðum viðunandi þjónustu og öryggi hvar sem þeir búa á landinu.