151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

greining leghálssýna.

[13:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Um helgina sá læknaráð Landspítalans sig knúið til að vekja athygli á því að stórt slys væri í uppsiglingu. Það fyrirkomulag að senda leghálssýni úr landi til greiningar er að mati ráðsins aðför að heilsu kvenna. Í umræðum um þetta mál hér um daginn sagði hæstv. heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta:

„Ég hef lagt á það áherslu að standa með faglegu mati míns fólks á því hvernig öryggi er best tryggt og upplýsingar verði öruggar á milli rannsóknastofunnar og þeirra kvenna sem fara í skimun.“

Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur lýst áhyggjum af seinagangi með niðurstöður hjá dönsku rannsóknastofunni sem sinnir nú greiningu. Rúmlega 1.000 sýni eru ógreind frá því í janúar og fram til þessa mánaðar. Gagnrýnisraddir sérfræðinga á þessu sviði eru háværar. Læknafélag Íslands hefur ályktað um það að með því að flytja rannsóknarhluta krabbameinsleitar í leghálsi séu mikilvæg störf lögð niður og flutt úr landi. Það er líka álit kvensjúkdóma- og fæðingarlækna. Það er álit Félags rannsóknalækna, álit embættis landlæknis og álit meiri hluta fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini. Gunnar Bjarni Ragnarsson, formaður Félags krabbameinslækna, hefur sagt í fjölmiðlum að það skipti ekki máli hver hýsi þjónustuna en það skipti hins vegar meginmáli hvar sýnin séu, hvar þau séu geymd og greind og hvernig aðgengi sé að sýnunum. Faglegt mat þessara sérfræðinga virðist ekki hafa ráðið för.

Ég spyr því ráðherra: Mat hverra var þarna að baki? Hvers vegna varð þessi greining flutt úr landi? Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið sjálfstætt viðfangsefni að efla traust til þessa kerfis í ljósi þess hvernig að þessum breytingum hefur verið staðið. Ég spyr að síðustu þriðju spurningarinnar: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að byggja megi upp traust aftur til þessa kerfis í ljósi þessarar þungu gagnrýni sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins?