151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

greining leghálssýna.

[13:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er þess fullviss að það sem er mikilvægast í þessu efni öllu er að fólk byggi umræðuna á staðreyndum. Ég held að það sé gott og mikilvægt veganesti fyrir alla sem eru í forystu í samfélaginu eða í heilbrigðisþjónustunni að byggja umræðu sína á staðreyndum. Það er mjög stórt sagt þegar fólk notar gífuryrði sem snúast um öryggi fólks og það á að fara varlega með gífuryrði í þeim efnum. Mér finnst það mjög mikilvægt. Mér finnst mikilvægt að sá ekki ótta og óöryggi í samfélaginu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, það er mikilvægt að umræðan sé opin, hún sé uppi á borðinu og að jafnframt liggi allar röksemdir og forsendur ákvarðana fyrir. Ef það hjálpar til að leggja fram skýrslu um málið þá geri ég það með gleði og vil benda á að heilsugæslan hefur núna hafið mjög ítarlega kynningu á framkvæmd málsins sem ég held að sé okkur öllum til góðs. (Forseti hringir.) Ég ítreka hversu mikilvægt það er að við tökum allar þátt í skimun gegn leghálskrabbameini.