151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum.

36. mál
[13:48]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með leyfi forseta: Húsið það lekur, myndast alltaf mygla þar. Þetta söng Ásgeir Trausti um árið í laginu Nýfallið regn. Það er ljóst að mörg hús á Íslandi gráta. Í kjölfar reynslu sinnar af vandamálinu sem um ræðir á eigin heimili réðst hv. þm. Halldóra Mogensen fyrsti flutningsmaður tillögunnar í þá vinnu að semja þingmálið sem við greiðum atkvæði um í dag, tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum. Þingsályktunartillagan leggur til í sex liðum þau nauðsynlegu atriði og þær breytingar sem þarf að ráðast í og falin yrðu félags- og barnamálaráðherra.

Ég vil sérstaklega þakka hv. velferðarnefnd allri sem hefur í verki sýnt skilning á alvarleika málsins. Það er sérstaklega gleðilegt að næstum öll nefndin sé á nefndarálitinu, fólk úr öllum flokkum á þinginu, og ég vil þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf um þetta mál. Það er gleðidagur að þetta sé komið til atkvæðagreiðslu hér í dag.