151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:18]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur andsvarið og tek undir að það er afskaplega gaman að eiga orðastað við hana og við erum bara að verða eins og síamstvíburar. Hún er sú sem sýnir mér hvað mestan áhuga þegar ég flyt mín mál og það er afskaplega ánægjulegt. Jú, ég deili þessum áhyggjum að vissu marki. Ég deili þeim áhyggjum ef vinnandi höndum fækkar eins og spálíkön sýna fram á og það er staðreynd að okkar þjóð lifir lengur og eldist eins og flestallar aðrar velmegunarþjóðir. Ég hef hins vegar engar áhyggjur af því fjármagni sem við myndum fá við inngreiðslurnar, sem væru sennilega um 75 milljarðar kr., á meðan lífeyrissjóðirnir fá að halda eftir sínum kannski 130 milljörðum til þess að halda áfram að fjárfesta, hvað þá ef þeir gera það snilldar vel og tapa vonandi ekki allt of miklu af því, þá hef ég engar áhyggjur af því að þetta kerfi í rauninni haldi ekki áfram að rúlla eins og það hefur gert hingað til.

Ég er hins vegar ekki ánægð með þetta kerfi á margan annan hátt. Mér finnst það hafa verið ósanngjarnt — þó að það sé ekki akkúrat það sem hv. þingmaður spurði mig um — og ég get alla vega sagt að ég hef áhyggjur af því að við stöndum kannski allt í einu uppi með það að velferðarkerfið okkar stendur ekki undir þeim væntingum og þeim markmiðum sem því er ætlað að gera. En ég tel ekki að það séu lífeyrissjóðirnir sem muni bjarga því, bara alls ekki. Og ég hef engar áhyggjur af því og tel að þessum fjármunum yrði svo vel varið í það t.d. að höggva meira á skerðingarnar, koma meira til móts við fólk til að reyna að hjálpa því að bjarga sér sjálft og að einmitt eldri borgararnir, sem hv. þingmaður talar um, fái kannski leyfi til þess að vinna t.d. án skerðinga því það eru ekkert svo rosalega mörg ár sem þessir eldri borgarar hafa heilsu til þess að halda áfram að bjarga sér.

Eins og staðan er núna hef ég meiri áhyggjur af því að stjórnvöld skuli ekki gefa þeim sem vilja vinna tækifæri á því að bjarga sér sjálfir með alls konar skerðingum og alls konar íþyngjandi aðgerðum sem við getum losnað við ef við staðgreiðum við innborgun í lífeyrissjóðina og nýtum þetta fjármagn t.d. í það.