151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:23]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta var alveg frábært andsvar, ég verð nú að segja það, vegna þess að það gefur mér bara fullt að spilum. Þegar hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir talar um að við höfum ekki áhuga — og takk fyrir að gefa okkur svona fallegt „kompliment“, að hafa tekið eftir því hvað við höfum barist — verð ég að segja að ég er dálítið sorgmædd að hv. þingmaður hafi ekki tekið eftir því að við höfum löggjafarþing eftir löggjafarþing mælt fyrir frumvarpi sem eingöngu lýtur að því að hætta að skerða vegna atvinnutekna. Akkúrat í því frumvarpi er sannarlega tekið fram að það hljóti náttúrlega að vera ákveðnar upphæðir sem við verðum að miða við. Það verður aldrei á neinum tímapunkti sem Flokkur fólksins stendur hér og reynir að verja þá sem eiga nóg fyrir sig og eru með fulla vasa af peningum. Það er aldrei. Sjálfstæðisflokkur hv. þingmanns sér alfarið um þann þjóðfélagshóp. Við erum hins vegar að berjast fyrir þjóðfélagshópnum sem á um sárt að binda og stendur hér höllustum fæti og við erum að reyna að berjast á öllum vígstöðvum við að reyna að finna út hvernig við getum híft upp lágmarkslaun þessara einstaklinga þannig að þeir eigi möguleika á því að geta séð sér þokkalega farborða. Í sambandi við að afnema algerlega skerðingar vegna launatekna og gefa fólki kost á að bjarga sér miðar þetta frumvarp eingöngu við fólk sem er ekki bara undir fátæktarmörkum heldur í sárri fátækt. Ég hvet hv. þingmann til að lesa enn einu sinni það frumvarp sem hefur komið hér fram um að afnema skerðingar á launatekjur aldraðra. Þar erum við líka með frumvarp varðandi það að afnema skerðingar á öryrkja. Ég býst ekki við að margir þeirra séu milljónamæringar eða sitji í einhverjum stjórnum og skari eld að eigin köku. Því miður er bara nánast enginn (Forseti hringir.) í þeirri stöðu. Svo að það sé sagt held ég að þetta sé algjörlega skýrt. Nei, við erum ekki þannig að við viljum ekki skerða og yfir höfuð vera að hjálpa þeim sem eru (Forseti hringir.) milljarðamæringar hér.