151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:46]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir andsvarið. Þingmanninum er náttúrlega, eins og mér, kunnugt um það að hluti af lífeyrissjóðakerfinu okkar er svokallað samtryggingarkerfi og það er eðli samtryggingarkerfa, alveg eins og þegar maður kaupir sér tryggingu og borgar hana, að það er ekki alltaf sem menn fá greitt út úr þeim tryggingum. Það sama á við um samtryggingarkerfið. Það tryggir að kerfin geti til að mynda mætt hlutum eins og örorku sem verður hjá sjóðfélögum sem byrja þá að taka fyrr út úr kerfinu en ella væri o.s.frv. Hins vegar er hinn hluti kerfisins, eins og þingmaðurinn þekkir, séreignarhlutinn sem erfist. Þetta er kannski varðandi þann hluta sem þingmaðurinn var að velta fyrir sér.

Síðan er það lýðfræðin sem blasir við okkur. Það blasir við okkur að þjóðin er að eldast og allar lýðfræðilegar spár gera ráð fyrir því. Ég tek heils hugar undir það með þingmanninum að auðvitað skiptir það okkur sem samfélag mjög miklu máli að fá fólk erlendis frá til að vinna hluta af þeim störfum sem við höfum hreinlega ekki mannskap til að vinna hér. Auðvitað borgar það fólk skatta og skyldur til samfélagsins en það breytir ekki því að jafnvel með þeirri breytingu þá mun lýðfræðin smátt og smátt sýna okkur á Íslandi, eftir 25, 30 ár, að við höfum sex vinnandi hendur til að standa undir velferðarkerfinu fyrir hvern einn aldraðan. Í dag höfum við 12, ef við gerum ráð fyrir að allir hafi tvær hendur eða flestir. Við munum þurfa að bregðast við þessu og þessi tillaga gengur að mínu viti í öfuga átt við það viðbragð.