151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

málefni aldraðra.

164. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta síðasta sem hv. þingmaður kom inn á og kallaði stóru sleggjuna þá hef ég veifað þeim hamri sjálfur í nokkur skipti. Ég held að við séum löngu komin þangað að við eigum að endurskoða það hvort við þurfum sérstaka löggjöf um málefni eldra fólks. Þingmaðurinn kannast alveg við röksemdir mínar í því efni frá því áður, þ.e. eldra fólk er nákvæmlega eins fólk og við hin. Að vísu er hópurinn kannski dálítið breytilegri en fólk á besta aldri en engu að síður fólk með langanir, þrár og væntingar, alveg eins og aðrir.

Þingmaðurinn spurði: Er núverandi kerfi, það fyrirkomulag sem við erum að nota núna, ásættanlegt? Eiginlega má segja að það að flytja mál eins og þetta svari þeirri spurningu sumpart ágætlega: Nei, kerfið er alls ekki ásættanlegt, enda erum við hér að reyna að breyta því. En það er í svo mörgu sem við þurfum að taka upp þráðinn, taka upp kerfið eða fyrirkomulagið sem við höfum notað. Eitt af því er t.d. greiðslufyrirkomulagið sem hv. þingmaður nefndi. Ég hef verið talsmaður þess að það sé endurskoðað og nú er raunar í gangi endurskoðun á daggjaldakerfi öldrunarstofnana. Það er einn angi af þessu máli. En málið er samt miklu stærra, sérstaklega í ljósi þess að við ætlumst til þess að hjúkrunarheimilin séu heimili fólks. Þá eigum við kannski að leyfa okkur aðeins breytingu á hugsun, kannski á (Forseti hringir.) einmitt greiðslufyrirkomulagið og gjaldtakan að taka miklu meira mið af því að við ætlum að láta fólki líða eins og heima hjá sér.