151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

fullur aðskilnaður ríkis og kirkju og ný heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga.

178. mál
[17:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er ákveðið afturhvarf til einhverra síðustu þinga að standa hér í andsvari við hv. þingmann um þetta mál, af því að ég ætla að vera með sama andsvarið. Þannig er mál með vexti að ég skil ekki alveg enn þá það sem ég ætla að spyrja um og ég hélt kannski að það myndi vera komið aðeins inn á það í greinargerðinni, en svo er ekki. Staðreyndin er sú, óháð því hver skoðun mín er á innihaldi þingsályktunartillögunnar, sem mér líst að mörgu leyti ágætlega á, að árið 2012 var spurt eftirfarandi spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Þetta samþykktu þátttakendur í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu, litlu færri en samþykktu aðra spurningu um jafnt vægi atkvæða. Ég er pínulítið hissa á sumum flutningsmönnum þessarar tillögu, sem sum hver, ég hef ekki heyrt annað, hafa haldið því á lofti þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem mjög mikilvægum áfanga í stjórnarskrármálinu sem beri að virða og jafnvel er talað um að nýverið hafi u.þ.b. 40.000 Íslendingar skrifað undir undirskriftalista um að virða ætti þá þjóðaratkvæðagreiðslu. En hér er aftur tillaga um að ganga þvert gegn sömu þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann hreint út enn og aftur, óháð innihaldi tillögunnar sjálfar: Telur hann sem sagt þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 marklausa þannig að ekki beri að fara eftir henni, eins og tillaga hans virðist gefa til kynna?