151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

minnisvarði um eldgosin í Surtsey og Heimaey.

179. mál
[17:35]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla svo sem ekki að orðlengja neitt í kringum þetta mál. En af því að mér er málið skylt sem einum af þeim sem að þessu standa þá langar mig að segja örfá orð sem tengjast í fyrsta lagi því að flestir þingmenn Suðurkjördæmis eru með á málinu, eins og við segjum. Þetta er svolítið ákall frá þverpólitískum hópi, ef við orðum það þannig. Það er búið að segja það sem skiptir máli varðandi Surtsey, sem er jú skráning á heimsminjaskrá, og sá vísindalegi árangur sem þar hefur náðst. En þegar kemur að gosinu á Heimaey held ég að það sem standa muni upp úr kannski einna lengst séu minningarnar sem tengjast þessu gosi vegna þess að það náði að hafa áhrif á margar þúsundir manna. Margt af því fólki er auðvitað er í fullu fjöri enn þá, en það mun breytast með tíma og þetta verður atburður í Íslandssögunni sem verður að mörgu leyti einstakur. Þess vegna er gott að það verði einhvers konar minnisvarði til um hann. Auðvitað hafa menn mismunandi skoðanir á minnisvörðum. Ef minnisvarðinn verður reistur, hvernig sem hann mun nú verða eða hvernig sem þetta mun líta út eða hvar hann verður staðsettur, þá þarf að tengja hann við Eldheima, sem er sýning á safni sem er í Vestmannaeyjum og hefur vakið mikla athygli. Ef vel tekst til held ég að sé vel af stað farið en væri verr ef heima væri setið.