151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

185. mál
[18:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að lengja ekki þessa umræðu mikið en mér fannst rétt að geta þess að einhverra hluta vegna hef ég ekki verið færður á þetta þingskjal sem meðflutningsmaður en er sannarlega fylgjandi þessu máli. Þetta er algjörlega í takt við það sem ég og margir aðrir þingmenn höfum verið að tala fyrir hér í þinginu undanfarin misseri. Eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á hér áðan er þetta í rauninni mannréttindamál. Verið er að tryggja að ekki sé verið að ýta fólki út af vinnumarkaði á ómálefnalegum forsendum eins og aldri einum saman. Þetta er þess vegna mál með mjög skýra tengingu við annað þingmál sem er hér inni, um aldursfordóma. Það eru ákveðnir aldursfordómar sem felast í því að halda því fram að bara vegna þess að einhver hafi náð einhverjum tilteknum aldri kunni hann að vera ófær um að sinna sínu starfi. Ófærni til að sinna starfi er miklu líklegri til að tengjast einhverjum færniþáttum, heilsufarsþáttum en nokkurn tímann því á hvaða aldri viðkomandi er.

Frú forseti. Eins og ég sagði ætla ég ekki að lengja þessa umræðu en mér fannst mikilvægt að þessi sjónarmið kæmu fram og stuðningur minn við þetta mál. En eins og frú forseti veit þá má ekki lengur fara í samsvar, sem svo er kallað, þannig að ég lýsi yfir stuðningi við málið.