153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:40]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í desember bárust fréttir af því að kjarasamningar hefðu náðst við meiri hluta launafólks á almennum vinnumarkaði. Við höfðum ríka ástæðu til að ætla að nú tækist með samstilltu átaki að ná skynsamlegri lendingu á vinnumarkaðnum í heild og þannig vinna okkur hægt en örugglega í átt að því að ná niður verðbólgu og vöxtum. Heildarhagsmunir voru í forgangi, hagsmunir sem skipta máli við að reka hér samfélag á skynsamlegan og heilbrigðan hátt. Það urðu því mikil vonbrigði að ekki tókust samningar á milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Þar með sátu liðlega 20.000 félagsmenn Eflingar eftir og þeir hafa ekki notið kjarabóta til jafns við aðra á almennum vinnumarkaði, kjarabóta sem félagsmenn þurfa á að halda.

Maður leiðir hugann óhjákvæmilega að því hvort það hafi verið raunverulegur vilji forystu Eflingar að ná samningum fyrir sitt fólk. Ég get ekki betur séð en að hugmyndafræðin snúist um átök átakanna vegna. Einföld og úrelt mynd er dregin upp varðandi samband og samskipti launafólks og atvinnurekenda. Ég leyfi mér að fullyrða að sú orðræða sem Efling hefur uppi varðandi það samband sé í hrópandi andstöðu við raunveruleikann nema í algerum undantekningartilfellum, enda hafa kannanir sýnt að flest fólk ber mikið traust til sinna vinnuveitenda og nýir kjarasamningar í vetur voru alls staðar samþykktir með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða.

Sú kjaradeila sem við stöndum frammi fyrir snýst um heildarsamhengi hlutanna. Sú hugmyndafræði sem Efling beitir hér er úrelt og snýst um átök átakanna vegna. Þegar farið er af stað með það að leiðarljósi er ekki von á góðri niðurstöðu.