153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Nú í vetur náðu ríki heims sameiginlegri niðurstöðu, dálítið góðri og mikilvægri niðurstöðu, varðandi líffræðilega fjölbreytni. Það náðist að semja um markmið fyrir heiminn, að friðlýsa 30% af landsvæði og 30% af hafsvæði til að standa vörð um fjölbreytni líffræðinnar á þeim svæðum. Þessu markmiði á að ná árið 2030. Ef við horfum á Ísland þá erum við komin nálægt þessu á landi, þökk sé því að eiga mjög stóra þjóðgarða. Ég held við séum á milli 25 og 30% þar. En við eigum afskaplega langt í land á hafi. Þar er aðeins búið að friðlýsa 0,07%. Taktu eftir, forseti, markmiðið er 30% fyrir árið 2030. Það hafa bara 14 svæði verið vernduð í hafi sem eru ekki friðuð vegna fisk- eða nytjastofna. Þetta eru þá hverasvæði og kóralsvæði og svo eru það Eldey og Surtsey. Annað hefur ekki verið gert, sem skýtur dálítið skökku við hjá landi sem er í jafn miklum tengslum við hafið og Ísland.

Þetta var gagnrýnt í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær. Hörður Sigurbjarnarson, sem stofnaði hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursiglingu á Húsavík, benti á að hér væru Íslendingar miklir eftirbátar. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, svarar þessu í Fréttablaðinu í dag og segir að Ísland komi vel út í þessum málum samanborið við mörg lönd — 0,07% hjá Íslandi, 30% markmið eftir sjö ár.

Herra forseti. Það er allt í lagi að vera stoltur af sínu (Forseti hringir.) og fagna því sem vel er gert en hæstv. ráðherra þarf líka (Forseti hringir.) að vera í einhverjum tengslum við raunveruleikann því að hér er Ísland ekki að standa sig nógu vel. Hér þarf að gera miklu betur. Það fyrsta sem ráðherrann þarf að gera er að horfast í augu við vandann (Forseti hringir.) sem hann á greinilega erfitt með.