153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær var 50 ára afmæli Samhjálpar og mörgum okkur þingmönnum var boðið að sækja þau heim, þau héldu lítið kaffisamsæti í tilefni af hálfrar aldar afmæli sínu í gær í Oddfellow-húsinu. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta boð og ég er þakklát fyrir að hafa mætt og tek undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni sem ræddi hér áðan um fíknivanda og erfiðleikana í samfélaginu; það er í rauninni þyngra en tárum taki hversu alvarlegt ástandið er í samfélaginu í dag. Samhjálp er að hjálpa hundruð einstaklinga til betra lífs eins og margir aðrir sem eru að taka utan um þennan veika þjóðfélagshóp. Ég trúi því varla að við séum að tala um hátt í þúsund manns, fárveikt fólki á biðlista eftir þjónustu, hátt í þúsund einstaklingar. Þessir einstaklingar, margir hverjir, fá ekki lengri eftirmeðferð en einhverjar vikur. Þeir eru varla búnir að átta sig á því hversu veikir þeir eru þegar þeir eru komnir út í samfélagið á ný sem tekur ekki á móti þeim opnum örmum heldur þvert á móti með fordómum. Þvílíkir fordómar. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var að nefna heilbrigðiskerfið og þrautagöngu móðurinnar sem sótti son sinn til Portúgal, fárveikan, og maður getur ekki annað en bara orðið orðlaus. Ég verð það ekki oft. En staðreyndin er nákvæmlega þessi. Fordómarnir eru slíkir að jafnvel á bráðamóttökunni, jafnvel þar sem heilbrigðisstarfsfólk er að vinna með þessa veiku einstaklinga, er kíkt á kennitöluna og sagt: Já, einmitt, þú ert einn af þeim. Þú ert einn af þessum. Þú átt ekki heima hér. Farðu og gerðu eitthvað annað. (Forseti hringir.)

Í lokin segi ég þetta, virðulegi forseti: Mér fyndist bragur á því að færa Samhjálp afmælisgjöf. Við eigum að gera það eftir hálfrar aldar dygga þjónustu þeirra, þau gefa 100.000 máltíðir á hverju einasta ári í Borgartúni þar sem þau eru með kaffistofuna sína, (Forseti hringir.) taka utan um fólkið sem við hér í þessum sal og borgarstjórinn í Reykjavík (Forseti hringir.) og það fína lið skilur eftir hjá garði, hálfsveltandi og í vondum málum.