153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

Störf þingsins.

[16:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Undanfarna daga höfum við séð banvæna árásir Ísraela í Jenin á Vesturbakkanum, palestínskum eldflaugum skotið á Ísrael frá Gasa, sprengjuárásir Ísraels í hefndarskyni og hryðjuverkaárás nálægt samkunduhúsi í ísraelska landnemahverfinu í austurhluta Jerúsalem sem þeir lögðu undir sig árið 1962. Á tveimur sólarhringum létust níu Palestínumenn og sjö Ísraelar. Átök milli Ísraels og Palestínu eru því miður komin á sitt versta stig. Stigmögnun ofbeldis og árásir eiga ekki að koma neinum á óvart. Í margar vikur hefur vaxandi og harðara ofbeldi á svæðinu verið áhyggjuefni. Síðustu 12 mánuðir hafa verið þeir banvænustu fyrir Palestínumenn á hernumdum Vesturbakkanum síðan frá lokum seinni „intifada“ árið 2005 og allt þetta áður en hægri sinnaðasta bandalagið í sögu landsins komst til valda í Ísrael sem gaf t.d. öfgahægrisinnuðum embættismanni sem er félagi í bönnuðum stjórnmálaflokki vegna hatursorðræðu og öfgahyggju gagnvart Palestínuaröbum, yfirráð yfir öryggismálum Ísraels. Alþjóðasamfélagið kallar nú sem áður eftir ró á svæðinu en dapurlega staðreyndin er sú að möguleikinn á lífvænlegri Palestínu er því miður að hverfa hratt vegna vanhæfni til að skapa traust milli deiluaðila og vanhæfni til að stöðva ofbeldisfulla nýlenduhyggju Ísraelsmanna á Vesturbakkanum. Ný ríkisstjórn öfgahægrimanna í Ísrael lýsir því nú yfir að Ísrael eigi að framfylgja einkarétti og ófrávíkjanlegum rétti til allra hluta Ísraelslands sem feli í sér hernám Vesturbakkans og hvatningu til ólöglegs landnáms þar.

Hvernig kemur þetta okkur við hér? Jú, fyrrverandi utanríkisráðherra sýndi engan áhuga á Palestínu í þau fimm ár sem hann gegndi þeirri stöðu þrátt fyrir að ég vakti oft athygli á því hér í þingsal að efla ætti fríverslunarsamning Íslands og Palestínu eða spurði um lækkað fjármagn til mannúðarverkefna í Palestínu. Enginn þingmaður á Alþingi eða ráðherra hefur vakið athygli á skýrslu Amnesty International um aðskilnaðarstefnu Ísraelsríkis eða gríðarlega mikilvæga skýrslu mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna sem kom út fyrir tíu mánuðum síðan þar sem staðhæft er með sönnunum að yfirvöld Ísraels haldi úti harðari aðskilnaðarstefnu gegn Palestínumönnum (Forseti hringir.) en yfirvöld í Suður-Afríku gerðu á sínum tíma gagnvart þeldökkum íbúum landsins. Enginn þingmaður hér bað um viðbrögð ráðherra (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar við þeim hörmulegu staðreyndum sem þar koma fram. Herra forseti. Ísland og Palestína eiga í sérstöku sambandi. Ísland var fyrsta vestræna ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 2010. (Forseti hringir.) Alþingi Íslendinga greiddi samhljóða atkvæði með þeirri þingsályktun (Forseti hringir.) og það er við hæfi að við sýnum samhljóða stuðning Alþingis við Palestínu í verki.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir hv. þingmenn á afar takmarkaðan ræðutíma.)