Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir mjög góða ræðu. Mig langar að ræða við hana um einn þátt sem hún fjallaði töluvert um í ræðu sinni og er mér einnig mjög hugleikinn en það er 8. gr. um fyrsta griðland. Rauði krossinn fjallar um þetta í sinni umsögn. Ég hef alltaf hugsað um þetta sem gildru sem er sett fyrir flóttafólk. Það er verið að búa til heimild fyrir Útlendingastofnun til að ákveða að umsækjandi hafi slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dveljist þar, eins og segir í ætluðu ákvæði. Það er verið að búa til þessa heimild fyrir Útlendingastofnun til að ákveða þetta og hafna umsækjanda um efnismeðferð vegna þess að ef ekki er hægt að vísa viðkomandi þangað, því að ekkert Dyflinnarreglugerðarsamkomulag eða neitt slíkt er í gildi, þá skal viðkomandi sviptur allri þjónustu, sviptur rétti til heilbrigðisþjónustu, sviptur húsnæði og framfærslu og ekki má hann vinna fyrir sér hér enda ekki með neitt atvinnuleyfi eða kennitölu eða hvað sem það er. Ég vildi velta því upp með hv. þingmanni að kannski er það of vægt til orða tekið hjá mér að kalla þetta gildru. Er þetta ekki hrein og klár kúgun?

Þegar ég hugsa um hvernig þetta er sett upp, það er svo skýr ásetningur um að nota þetta til þess að kúga fólk til að fara úr landi, þá spyr ég: Er þetta ekki bara farið að jaðra við ómannúðlega meðferð?