Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur kærlega fyrir ræðuna. Það kom fram í ræðu hv. þingmanns að það væri mikilvægt að hafa samráð í þessum málaflokki, það væri forsenda þess að hafa hér góða og mannúðlega löggjöf að haft verði samráð við þá aðila sem mesta þekkingu hafa á þessum málaflokki. Meiri hlutinn hér á þingi ber því við að mikið samráð hafi verið haft þar sem t.d. hafi verið fallist á allar gestabeiðnir í allsherjar- og menntamálanefnd, það hafi verið fjallað um umsagnir og annað slíkt. Hins vegar ber lítið á því að brugðist hafi verið við þeim umsögnum. Í umsögn Flóttamannastofnunarinnar eru t.d. mjög skýrar tillögur um lagfæringar og breytingar á frumvarpinu. Í umsögn Rauða krossins eru þær beinlínis orðaðar þannig að hægt er að klippa þær og líma inn í frumvarpið. Þau stilla upp nýrri tillögu að ákvæði. Það hefði því verið mjög auðvelt að taka þær einfaldlega upp og þetta eru allt mjög hófstilltar tillögur, þetta er allt bara til þess gert að tryggja lágmarksréttindi, þær ganga alls ekki langt og það eru alls ekki neinar tillögur um að opna landamæri í þessum lágmarksathugasemdum.

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands benti á það ásamt öðrum aðilum að í greinargerð með frumvarpinu kæmi fram að efni laganna gæfi ekki tilefni til að kanna samræmi við stjórnarskrá og var það því ekki gert. Því var heldur ekki komið til móts við þá ákaflega hófstilltu og einföldu athugasemd.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að ég skil það ekki, og velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi hugmynd um það hvers vegna þingmenn, sem ég held að hafi allir svarið eið við stjórnarskrána af heilum hug, vilja ekki að farið verði í úttekt á því hvort öll ákvæði þessa frumvarps standist (Forseti hringir.) stjórnarskrá. Hefur hv. þingmaður einhverja hugmynd um það hvers vegna í ósköpunum meiri hlutinn hafnar þeirri eðlilegu bón?