Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er að fara yfir rangfærslur dómsmálaráðherra úr einungis einu viðtali í maí á síðasta ári sem fjallaði að vísu um frumvarpið sem var þá til umfjöllunar á Alþingi en er að mörgu leyti sambærilegt því sem hér er um að ræða.

Sjöunda rangfærsla ráðherra var að það brjóti gegn jafnræði að stöðva endursendingar til eins ríkis en ekki annars. Þetta byggir kannski á einhverjum rosalegum misskilningi á því hvernig mál eru meðhöndluð. Það þýðir að það á að meðhöndla sambærileg mál á sama hátt en einstaklingar eru mjög mismunandi og úr mjög mismunandi aðstæðum og þá þarf að meta á mismunandi hátt. Einhver einstaklingur sem kemur hingað frá Grikklandi sökum þess að hann er ofsóttur vegna pólitískra skoðana fær kannski aðra meðhöndlun en einhver sem kemur frá Grikklandi og er ofsóttur vegna kynhneigðar af því að þetta eru ekki sambærileg mál, þau eru svipuð, vissulega, falla undir ákveðnar minnihlutavarnir, réttindi hvað það varðar, en félagslegar aðstæður þeirra kannski í Grikklandi gætu síðan verið aðrar sem myndi gefa mismunandi niðurstöðu í þessi tvö mál. Það er ekki almennt séð hægt að segja að það brjóti gegn jafnræði að stöðva endursendingar til eins ríkis en ekki annars.

Ísland hefur meira að segja á þessum tímapunkti ekki sent fólk til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar síðan 2010. Það er byggt á aðstæðum hælisleitenda þar í landi og brýtur ekki gegn jafnræði gagnvart síðan öðrum löndum, kannski eins og Þýskalandi eða eitthvað svoleiðis. Það væri ekki hægt að beita sömu rökum gagnvart tveimur eins umsækjendum með tilliti til þess hvort þeir komi frá Grikklandi eða Þýskalandi. Það eru augljóslega miklu öruggari aðstæður í Þýskalandi og væri ekkert mál að segja: Fyrirgefðu, þú ert þarna, ferð bara til Þýskalands aftur, þar ertu með vernd og með góða stöðu. Þú segir ekki það sama við einhvern sem er með nákvæmlega eins umsókn úr nákvæmlega sömu aðstæðum og er að koma frá Grikklandi. Það er bara tvennt mjög ólíkt þannig að það myndi ekki brjóta gegn neinu jafnræði að segja þeim að fara til baka sem kemur frá Þýskalandi en segja við þann sem kemur frá Grikklandi: Já, heyrðu, þetta er vandamál, við skulum hjálpa þér hérna.

Þetta lýsir annaðhvort vanþekkingu, sem er ekki gott, eða bara, eins og við segjum, rangfærslum. Ráðherra segir þetta bara, hvort sem verið er að segja eitthvað rangt við hann og hann veit ekki betur eða hvað. Það er alla vega mjög áhugavert að sjá þessar ítrekuðu fullyrðingar ráðherra aftur og aftur. Þrátt fyrir að það sé búið að benda honum á það hérna í ræðustól Alþingis og svoleiðis þá heldur hann samt bara áfram að segja þetta. Það er eins og það komist ekkert inn fyrir eyrun, stórkostlega merkilegt.

Síðan segir ráðherra að það sé ekki á forræði dómsmálaráðherra að rýmka reglur um heimild fólks til komu og dvalar í atvinnuskyni, það sé á forræði félags- og vinnumarkaðsráðherra. Nei, það þarf dvalarleyfi áður en það er hægt að veita atvinnuleyfi. Það er ekki hægt að veita atvinnuleyfi fyrst og svo dvalarleyfi. Það er öfugsnúningur þarna í gangi. Ráðherra virðist ekki alveg vita hvað fellur undir hans ráðuneyti þarna. Þess vegna er áhugavert að sjá þá grein frumvarpsins sem snýst um að veita tímabundið atvinnuleyfi til þeirra sem hafa komið hingað af mannúðarástæðum. Það er í frumvarpi dómsmálaráðherra en var ekki í frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra á síðasta þingi. Af einhverjum stórkostlega undarlegum ástæðum, þó að við værum með frumvörp frá báðum ráðherrum, þá neituðu meira að segja stjórnarliðar að samþykkja ákvæði sem var í frumvarpi dómsmálaráðherra sem breytingartillögu í frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra, þar sem það átti heima. (Forseti hringir.) Við erum á svo súrrealískum stað í þessum málaflokki að hver sem horfir á þetta utan frá og veit ekki um hvað þetta mál snýst — þá ætti bara þetta dæmi að sýna hversu miklu rugli (Forseti hringir.) þessi málaflokkur er í hjá þessari ríkisstjórn.

Ég bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.