Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er hér að fjalla um vinsælasta ákvæðið í frumvarpinu, eða hitt þó heldur, 6. gr. Hún fjallar um sviptingu þjónustu, ef þjónustu má kalla, að 30 dögum liðnum eftir lokasynjun á stjórnsýslustigi. Ákvæðið hefur verið gagnrýnt af nánast öllum umsagnaraðilum og miklum áhyggjum lýst af því í meðförum nefndarinnar hjá allsherjar- og menntamálanefnd en ekki bara það, ekki bara hefur verið gagnrýnt hversu ómannúðlegt sé nú að vísa fólki á götuna heldur hefur verið gríðarlega erfitt að fá upplýsingar um nákvæmlega hvaða þjónustu fólk mun missa, hvaða þjónustu það mun fá þegar það er búið að missa þessa þjónustu, hver veitir hana og hvenær henni lýkur og annað slíkt. Í rauninni er allt mjög óljóst varðandi það hvernig þetta ákvæði verður í framkvæmd, enda eru einu svörin sem fengust frá t.d. dómsmálaráðuneytinu og fleiri ráðuneytum, þegar við spurðum út í málið í allsherjar- og menntamálanefnd, þau að fólk ætti bara að fara heim. Það á bara að fara heim. Við spurðum: Ókei, en ef það fer ekki heim, hvað gerist þá? Það á bara að fara heim. Það er öll pælingin við þetta ákvæði. Það er ekki búið að útfæra eitt eða neitt. Það er ekki búið að skilgreina hvaða þjónusta tekur við, ef einhver, og það virðist enginn vita nákvæmlega hvernig það yrði. Það eru ýmsar kenningar, ýmsar tilgátur, þær stangast á og annað, en hugsunin á bak við frumvarpið er einfaldlega þessi: Fólk á bara að fara.

Það sem mér hefur þótt áhugaverðast við það, eftir að hafa gruflað svolítið í því hvaða þjónusta tekur við þegar þessi frábæra þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd fellur niður, er að ég fæ ekki betur séð en að ef einstaklingur myndi flokkast sem útlendingur í neyð í kjölfar slíkrar sviptingar þá, eftir þann tíma sem hann yrði á götunni á meðan verið er að finna út úr því stjórnsýsluferli og komast að niðurstöðu um hvort hann sé útlendingur í neyð eða ekki og angra bæði ríki og sveitarfélög væntanlega með þeirri ákvörðun — segjum sem svo að hann verði metinn útlendingur í neyð og eigi rétt á þjónustu sem slíkur. Þá fæ ég ekki betur séð en að það sé meiri þjónusta en umsækjendur um alþjóðlega vernd fá samkvæmt lögum um útlendinga. Við þessu fást engin skýr svör en það er einhver lágmarksframfærsla frá sveitarfélagi. Ég þekki ekki fjárhæðina en ég þykist vita að hún sé meira en 10.400 kr. á viku sem mér skilst að sé orðinn vikupeningur hælisleitenda, hann var 8.000 kr. þar til fyrir stuttu.

Varðandi heilbrigðisþjónustu þá lítur reyndar út fyrir að fólk muni fá alla þá heilbrigðisþjónustu sem það þarf á að halda, þ.e. neyðarþjónustu, en það mun þurfa að borga fyrir hana fullt verð. Ég man ekki hvað nótt kostar á sjúkrahúsi, ætli það sé ekki yfir milljón, tvær, ég man það ekki, og annað slíkt, það að fá sjúkrabíl kostar einhverja tugi ef ekki hundruð þúsunda og þannig fram eftir götunum. Alla vega hafa svörin frá fulltrúum stjórnvalda, fulltrúum ríkisstjórnarinnar, ýmist verið á þá leið að nei, það muni enginn á endanum missa þjónustu, annað kerfi taki við, og jú, þau muni missa þjónustu og þetta eigi að hafa þau áhrif að „hvetja þau“ til að fara heim. Það er bara alls ekki á hreinu hvað gerist. Ef önnur betri þjónusta tekur við, hver eru þá varnaðaráhrifin? Hver er þá tilgangurinn með þessu? Hver er þá þrýstingurinn á að fólk fari? Ef engin þjónusta tekur við. Gefum okkur að það geti mögulega verið staðan, þá var ég með spurningu sem ég fékk hvergi svar við og enginn virðist hafa hugsað út í, allra síst í dómsmálaráðuneytinu. Það er: Hvað með samfélagsleg áhrif af því að hér verði fjöldi fólks á götunni? Þegar ég spurði dómsmálaráðuneytið að þessu: Eruð þið búin að kanna áhættu, gera áhættumat á því að það fjölgi hérna heimilislausu fólki, örvæntingarfullu í mikilli neyð, sem hefur engan aðgang að þjónustu og ekki húsaskjól og ekki annað? Svarið var: Nei, þeir eiga bara að fara heim. Þeir eiga bara að fara heim til sín. En það sem við vitum af reynslunni er að sum þeirra telja sér ekki fært að fara heim. Sumum þeirra er ekki fært að fara heim og stjórnvöld vita meira að segja af því. En þá á þetta víst allt að ganga upp. (Forseti hringir.) En stundum er það þannig að stjórnvöld telja fólki fært að fara heim en það telur ekki svo vera sjálft. Hvað verður um það fólk? Það á bara að fara heim.

Ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.