Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hérna í umræðunni er ég búinn að renna aðeins yfir frumvarpið, þessi 11 atriði sem lagt er til að sé breytt. Það er síðan að vísu breytingartillaga í áliti meiri hlutans sem er tímabundin viðbót sem ég á eftir að fara yfir, geri það seinna í umræðunni. Ég er búinn að fjalla aðeins um pólitísku aðstæðurnar hérna og hvernig ferlið í þinginu virkar, hvernig við glímum við aðstæður, dagskrárstjórn og svona hvernig pólitíkin virðist liggja í þessu máli. Þegar allt kemur til alls erum við einmitt að glíma við mál sem beinist að mjög viðkvæmum hópi fólks og sitt sýnist hverjum um það hvernig á að sinna þeim hópi. En á meðan við erum aðilar að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og fylgjum mannréttindaviðmiðum landa sem við viljum bera okkur saman við í Evrópu þá þurfum við að uppfylla ákveðnar kröfur. Þær kröfur eru það sem birtist okkur í umsögnum sérfróðra aðila um þennan málaflokk sem segja okkur að þetta frumvarp sé að ganga á réttindi fólks.

Ég fór aðeins yfir umsagnir áðan, og þær eru fleiri, sem er vert að huga sérstaklega að, eins og athugasemdir eða minnisblöð frá ráðuneytinu sjálfu sem eru að svara ýmsu, en það er gott að fara yfir það alla vega eftir á. En á meðan við erum að glíma við mjög flókin málaflokk vegna hóps fólks sem er í viðkvæmri stöðu, það á að breyta réttindum þessa hóps, það á að ganga á réttindi þessa fólks og miðað við umsagnirnar sem koma inn um þetta frumvarp, þá hljótum við að þurfa að taka það alvarlega. Á meðan það er ekki verið að koma til móts við þessar umsagnir þá hljótum við að þurfa að spyrja: Af hverju? En við fáum ekki svör við þeim einföldu spurningum heldur er málinu bara kippt út úr nefnd undir þeim formerkjum að þetta mál sé búið að koma svo oft fram áður að það hljóti að vera orðið rosalega ítarlega og vel unnið þess vegna. Það er ekkert sem bendir til þess. Það er ekkert sem tryggir að frumvarp sem hefur verið lagt fram aftur og aftur og fær neikvæðar umsagnir í hvert einasta sinn verði allt í einu gott eins og fyrir töfra í fimmta sinn sem það er lagt fram eða bara af því að fólk er að segja það. Umsagnirnar um þetta mál eru enn þá neikvæðar og það er ekki enn búið að bregðast við þeim. Og þegar við spyrjum af hverju þá fáum við ekki svör. Þannig að það er kannski nauðsynlegt að fara dálítið yfir umsagnirnar til að rýna hvað það er sem við erum að gera hérna. Af hverju erum við að taka umræðuna, sem ætti að vera inni í nefndinni, í þingsal? Einfaldlega af því að ríkisstjórnin segir, stjórnarflokkarnir segja: Við erum búin með nefndarvinnuna að okkar mati og viljum fá málið inn í þingsal. Ef þið viljið endilega ræða málið í þingsal þá erum við alveg ánægð með að gera það. Það er ekkert að því að taka nefndastörfin inn í þingsal. Það er bara mjög óskilvirk leið til að glíma við málið. Það eru mun fleiri sem þurfa að koma að málinu og það er ekki hægt að vinna önnur mál í þingsal eins og er á meðan ríkisstjórnin setur þetta mál fremst á dagskrá. Það væri alveg hægt að gera það ef einhver önnur mál væru sett á dagskrá og þetta væri þá seinna. Það mundi þá bara koma að því þegar röðin kæmi að því. En forgangsröðunin er sú að, nei!, öll önnur mál eiga að bíða. Þetta fer fremst. Og þrátt fyrir allar neikvæðu umsagnirnar ætlum við bara að keyra í næturfundi til að eiga nú þessa samræðu sem á að vera svo rosalega lýðræðisleg í þessari málstofu lýðræðisins í þingsal. En svo bara mætir enginn annar til þess að svara þessum einföldu spurningum: Bíddu, fyrirgefið þið! Það er ótækt að tafir sem megi rekja til aðstandenda barns komi niður á rétti barns til efnismeðferðar. (Forseti hringir.) Af hverju eruð þið að gera það? En það kemur enginn og svarar. Þess vegna erum við að biðja um að málið fari aftur til nefndar til þess að það sé hægt að spyrja (Forseti hringir.) ráðuneytin t.d.

Til þess að fara betur yfir umsagnir þá bið ég forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.